- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
Ársreikningur Fljótsdalshéraðs fyrir árið 2015 var lagður fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs þann 6. apríl 2016 samþykktur og áritaður af bæjarráði og bæjarstjóra. Samkvæmt sveitarstjórnalögum skal fjalla um ársreikninginn á tveimur fundum í sveitarstjórn og er áætlað að seinni umræða fari fram miðvikudaginn 20. apríl 2016.
• Afkoma af rekstri Fljótsdalshéraðs fyrir árið 2015 var jákvæð um 46,2 millj. kr. samkvæmt samstæðureikningi sveitarfélagsins en fjárhagsáætlun 2015 með viðaukum gerði ráð fyrir 37 millj. kr. rekstrarafgangi. Afkoma A hluta var jákvæð um 10,8 millj. kr. en fjárhagsáætlun með viðaukum gerði ráð fyrir 27,3 millj. kr. rekstarafgangi.
• Rekstrarniðurstaða fyrir afskriftir, fjármagnsliði og tekjuskatt (EBITDA) í samstæðureikning Fljótsdalshéraðs var jákvæð um 755 millj. kr. á árinu 2015 eða 20,25% í hlutfalli af rekstartekjum.
• Í A hluta nam EBITDA 495 millj. kr. á árinu 2015 eða 15% í hlutfalli af rekstartekjum.
• Veltufé frá rekstri nam 452 millj. kr. á árinu 2015 í samstæðu A- og B hluta eða 12% í hlutfalli af rekstartekjum. Veltufé frá rekstri í A hluta nam 284 millj. kr. eða 8% í hlutfalli af rekstartekjum.
• Samanlögð heildarútgjöld til rekstrar vegna A- og B-hluta í reikningsskilum sbr. 64. gr. sveitarstjórnarlaga skulu á hverju þriggja ára tímabili ekki vera hærri en sem nemur samanlögðum reglulegum tekjum (jafnvægisreglan). Samkvæmt ársreikningi 2015 nema rekstartekjur áranna 2013-2015 120 millj. kr. umfram rekstargjöld.
• Eigið fé var jákvætt í árslok 2015 um 188 millj. kr. í samstæðu A- og B hluta. Eigið fé A hluta er jákvætt um 137 millj. kr. í árslok 2015.
• Skuldir og skuldbindingar samstæðu A- og B hluta námu í árslok 2015 um 8.791 millj. kr. og hækka um 243 millj. kr. frá árinu 2014 sem skýrist meðal annars af 330 millj. kr. lántöku vegna byggingar á nýju hjúkrunarheimili. Ríkissjóður mun á næstu 40 árum greiða sinn hluta í þeirri framkvæmd í formi leigugreiðslna. Skuldaviðmið skv. reglugerð um fjárhagsleg viðmið fyrir samstæðureikning A og B hluta er 207% í árslok 2015 en skal skv. sveitarstjórnarlögum vera 150%. Samkvæmt aðlögunaráætlun sem Fljótsdalshérað samþykkti árið 2012 og tók til endurskoðunar á árinu 2014 er það markmið sveitarfélagsins að skuldaviðmiðið verði komið niður fyrir 150% árið 2019. Afkoma ársins 2015 og þróun verðbólgu undanfarin misseri styrkir verulega að þau markmið gangi eftir á tilsettum tíma.
• Skuldir og skuldbindingar í A hluta nema 5.459 millj. kr. í árslok 2015 og lækkuðu um 59 millj. kr. frá árinu 2014. og er skuldaviðmið A hluta er 160% í árslok 2015 og er áætlað að það verði kringum 150% í árslok 2016.