- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
Ársreikningur Fljótsdalshéraðs var lagður fram á fundi bæjarstjórnar í síðustu viku. Rekstur sveitarsjóðs Fljótsdalshéraðs ásamt undirfyrirtækjum fór ekki varhluta af breyttum aðstæðum í efnahagsmálum þjóðarinnar á árinu 2008. Mestu áhrifin urðu á fjármagnsliðum sem hækkuðu gríðarlega miðað við áætlanir bæði vegna mikillar verðbólgu og gengishækkun erlendra lána. Annað sem gerði erfitt fyrir í rekstri sveitarfélagsins var að fyrirséð niðursveifla í útsvarstekjum varð brattari en ráð var fyrir gert og þar hafði efnahagskreppan mest áhrif. Framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga á árinu 2008 voru mun lægri en áætlað hafði verið þar sem ekki kom til greiðslu áætlað sameiningarframlag sem þó hafði verið samþykkt af Alþingi í fjáraukalögum fyrir árið 2008. Auk þess eru reglubundin framlög Jöfnunarsjóðs í lágmarki á árunum 2008 og 2009 þar sem miklar útsvarstekjur undanfarinna ára hafa áhrif á útreikning þeirra. Í langtímaáætlun sveitarfélagsins er gert ráð fyrir að framlög Jöfnunarsjóðs hækki jafnt og þétt eða úr 275 millj. kr. 2008 í 580 millj. árið 2012 miðað við núgildandi úthlutunarreglur sjóðsins.
Ársreikningur var tekinn til umfjöllunar og afgreiðslu í bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs við fyrri umræðu þann 20. maí og við síðari umræðu þann 3. júní n.k.
Ársreikningurinn er settur fram samkvæmt reikningsskilum sveitarfélaga. Starfseminni er skipt upp í tvo hluta, A-hluta annars vegar og B-hluta hins vegar. Til A-hluta telst starfsemi sem að hluta eða öllu leyti er fjármögnuð með skatttekjum. Um er að ræða Aðalsjóð, Eignasjóð, Þjónustumiðstöð og Fasteignafélag Fljótsdalshéraðs ehf. Til B-hluta teljast fjárhagslega sjálfstæð fyrirtæki sem að hálfu eða meirihluta eru í eigu Fljótsdalshéraðs en rekstur þeirra er að stofni til fjármagnaður með þjónustutekjum. Fyrirtækin eru: Atvinnumálasjóður, Brunavarnir á Héraði, Dvalarheimili aldraðra, Félagslegar íbúðir, Fjárafl, Fráveita, Hitaveita Egilsstaða og Fella ehf., Minjasafn Austurlands, Sláturhúsið Menningarsetur ehf. og Sorpstöð Héraðs.
Afkoma af rekstri sveitarfélagsins var neikvæð um 806 millj. kr. á árinu 2008 samkvæmt samanteknum ársreikningi fyrir A og B hluta en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir 0,4 millj. kr. rekstrarafgangi. Rekstrarniðurstaða A hluta var neikvæð um 522 millj. kr. en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir 7,5 millj. kr. rekstrarafgangi. Fjárhagsáætlun fyrir árið 2008 var samþykkt í byrjun desember 2007 og er hún til viðmiðunar í ársreikningi. Áætlunin var samkvæmt venju undanfarinna ára ekki tekin til formlegrar endurskoðunar á árinu 2008.
Tekjur af útsvörum og fasteignasköttum voru 78 millj. kr. undir áætlun og framlög jöfnunarsjóðs urðu 106 millj. undir áætlun. Laun og launatengd gjöld ásamt breytingu á lífeyrisskuldbindingu fóru 50 millj. kr. fram úr áætlun og vega þar þyngst nýir kjarasamningar við grunnskólakennara á miðju ári og á almennum vinnumarkaði á haustmánuðum.
Fjármagnsliðir samstæðureiknings námu 696 millj. kr. Þar af eru reiknaðar verðbætur og gengismunur 597,6 millj. kr. Frávik á niðurstöðu fjármagnsliða og áætlunar nemur 516 millj. kr.
Neikvætt handbært fé til rekstrar var 97 millj. kr., sem skýrist af tekjusamdrættinum og aukins launakostnaðar. Fjárfestingahreyfingar námu 964 millj. kr. á árinu 2008. Fjármögnunarhreyfingar námu 944 millj. kr. á árinu en lækkun á handbæru fé nam 117 millj. kr. og nam það 270 millj. kr. í árslok 2008.
Heildarlaunagreiðslur án launatengdra gjalda námu 938 millj. kr. hjá samstæðunni. Fjöldi stöðugilda var að meðaltali 248. Laun og launatengd gjöld sveitarfélagsins í hlutfalli við rekstrartekjur 50,7%. Annar rekstarkostnaður var 47,2% af rekstartekjum. Skatttekjur eða útsvar og fasteignaskattur námu 356 þús. kr. á hvern íbúa en rekstartekjur í heild voru 606 þús. kr. á hvern íbúa á árinu 2008.
Samkvæmt efnahagsreikningi eru eignir sveitarfélagsins bókfærðar á 5.122 millj. kr., þar af nema veltufjármunir 599 millj. kr. Skuldir sveitarfélagsins með lífeyrisskuldbindingum nema 4.240 millj. kr., þar af eru skammtímaskuldir 651 millj. kr. Veltufjárhlutfallið er 0,92 í árslok en var 1,41 árið áður. Bókfært eigið fé nam 883 millj. kr. í árslok 2008 en nam 1.688 millj. kr. í árslok 2007.