Áramótabrenna færð fram

Ákveðið hefur verið að kveikja í áramótabrennu á Egilsstöðum klukkan 17.00 á gamlársdag en ekki klukkan 20.30 eins og verið hefur undanfarin ár.

Þetta er gert að frumkvæði Björgunarsveitarinnar Héraðs sem annast framkvæmd brennunnar. Flugeldasýning hefst klukkan 17.30 og helgihald í Egilsstaðakirkju klukkan 18. Karen Erla Erlingsdóttir menningarfulltrúi segir nokkuð skiptar skoðanir um þessa ákvörðun, en hún hafi fyrst og fremst verið tekin vegna þess að erfiðlega hefur gengið að manna stöður björgunarsveitarmanna við brennuna undanfarin ár. Karen telur breytinguna jákvæða og koma sér vel fyrir marga, einkum fjölskyldur með ung börn. Tímasetning brennunnar verður síðan endurmetin að ári, með hliðsjón af því hvernig til tekst í ár.