Ályktun varðandi ábúð ríkisjarða

Unaós - Mynd tekin af vef Austurlambs
Unaós - Mynd tekin af vef Austurlambs

Á fundi bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs 19. apríl 2017 var fjallað um bréf frá ábúendum á Unaósi-Heyskálum, varðandi áframhaldandi búsetu á jörðinni og drátt á því að hún sé auglýst laus til ábúðar. Einnig var rætt um ábúð á ríkisjörðum í sveitarfélaginu og tregðu ríkisvaldsins til að auglýsa aftur jarðir til ábúðar sem sagt hefur verið lausum.

Að umræðum loknum var eftirfarandi tillaga lögð fram og samþykkt samhljóða:
Bæjarstjórn tekur heilshugar undir með bréfriturum og ítrekar fyrri afstöðu sína í málefnum ríkisjarða sem birtist meðal annars í bókun bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs frá 15. júní 2016 og var svohljóðandi:

Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs beinir því til ríkisvaldsins að leita allra leiða til þess að ríkisjarðir séu setnar og tryggja að samfella sé í búrekstri þeirra jarða sem hafa verið í nýtingu. Í ljósi stöðu dreifbýlis Fljótsdalshéraðs er það sveitarfélaginu sérstaklega mikilvægt að þessar kostajarðir séu setnar. Bæjarstjórn felur bæjarstjóra að fylgja málinu eftir.