Ályktun bæjarráðs vegna ferjusiglinga

Á fundi bæjarráðs Fljótsdalshéraðs miðvikudaginn 13. nóvember, var eftirfarandi samþykkt samhljóða:

„Bæjarráð Fljótsdalshéraðs lýsir yfir fullum stuðningi við Seyðfirðinga og telur að ferjan Norræna eigi áfram að sigla til Seyðisfjarðar eins og verið hefur um árabil.

Bæjarráð telur einnig, með vísan til margítrekaðra samþykkta SSA um samgöngumál og samgönguöxlana þrjá á Austurlandi, að full samstaða sé innan fjórðungsins um að ferjuhöfn svæðisins hafi verið og verði áfram á Seyðisfirði.

Bæjarráð hvetur til þess að sveitarfélögin á Austurlandi gefi út afdráttarlausar yfirlýsingar í þá veru að þau muni standa saman um að tryggja áframhaldandi siglingar ferju til Íslands frá Evrópu, um Færeyjar til Seyðisfjarðar.

Bæjarráð bendir á að á Seyðisfirði hefur af hálfu ríkis og sveitarfélagsins verið ráðist í umfangsmiklar fjárfestingar til að taka á móti slíkum ferjusiglingum og að mjög óskynsamlegt verður að telja, að ætla að kasta þeim fjárfestingum fyrir róða.

Af hálfu Fljótsdalshéraðs og annarra sveitarfélaga á Austurlandi hefur margítrekað verið bent á nauðsyn þess að bæta samgöngur við Seyðisfjörð til að nýta betur þá möguleika sem þar er að finna til atvinnusköpunar og samfélagsþróunar Austurlandi öllu til góða.

Að mati bæjarráðs er nauðsynlegt að ríkisvaldið úthluti nú þegar auknu fjármagni til vetrarþjónustu á Fjarðarheiði, og þá með vísan til sérstöðu vegarins sem einu tengingar byggðarlagsins við þjóðvegakerfið, og við einu millilandaferju sem siglir hingað til lands.

Til lengri tíma er nauðsynlegt að ráðist verði í gerð jarðganga undir Fjarðarheiði í beinu framhaldi af gerð nýrra Norðfjarðarganga. Til að svo geti orðið þarf að ráðstafa fjármunum til rannsókna þegar á næsta ári og bæjarráð beinir því til fjárveitingarvaldsins að tryggja að svo megi verða.“

Myndin sem fylgir fréttinni er tekin af vefnum visitseydisfjordur.com.