- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
Í fundargerð kemur fram að atvinnumálanefnd telur að í því ástandi sem ríki á atvinnumarkaði í dagi skipti sveitarfélagið miklu máli að það sé vakandi yfir afdrifum fyrirtækjanna í sveitarfélaginu og beitt verði öllum ráðum til að standa vörð um rekstraumhverfi þeirra. Nefndin telur að mörg tækifæri leynist þrátt fyrir að blikur séu á lofti.
Í fundargerð atvinnumálanefndar eru taldar upp nokkrar aðgerðir sem geti verið liður í því að sporna gegn neikvæðum áhrifum þeirra efnahagsþrenginga sem þjóðin gengur í gegnum og þær geti skapað ný tækifæri á komandi árum. Í fyrsta lagi leggur nefndin til að ráðinn verði atvinnu og kynninarmálafulltrúi. Hann myndi meðal annars vinna með þjónustuaðilum og atvinnulífi í héraði. Með því væri hægt að sameina krafta og nýta betur þá öflugu stoðþjónustu sem er til staðar. Það er trú nefndarmanna að veljist rétt manneskja til starfsins gæti starfið skilað sér fljótt aftur í tekjum til sveitarfélagsins og því réttlætanlegur kostnaður á þessum tímum.
Þá hvetur nefndin til þess að markvisst verði unnið að eflingu þekkingar og nýsköpunar í sveitarfélaginu meðal annars í tenglslum við uppbyggingu á Vísindagarðinum. Uppbygging þar getur hvoru tveggja virkað sem skammtíma innspýting í atvinnulífið, á meðan á framkvæmdum stendur, en þegar litið er til framtíðar gæti Vísindagarðurinn þjónað enn stærra hlutverki sem drifkraftur í hagvexti og gert sveitarfélagið samkeppnishæfara. Meðal annars með því að skapa ný viðskiptatækifæri og virðisauka fyrir starfandi fyrirtæki á svæðinu, hlúa að frumkvöðlastarfsemi og fóstra ný sprotafyrirtæki. Einnig með því að búa til þekkingardrifin störf, byggja upp aðlagandi starfsumhverfi fyrir starfsmenn í þekkingar og nýsköpunarfyrirtækum og stofnunum, og halda utan um og virkja þá deiglu sem skapast á milli fyrirtækja, rannsóknarstofnana og háskóla innan garðsins sem og í samstarfsneti hans.
Í þriðja lagi hvetur nefndin til þess að bæjarráð láti skoða ávinning af því að sameina Atvinnumálasjóð og Fjárafl í einn öflugan atvinnutengdan sjóð. Með sameiningu þeirra yrði áfram möguleiki á því að styðja við áhugaverð og atvinnuskapandi nýsköpunarverkefni.
Þá kemur fram að atvinnumálanefnd stefnir að því að halda atvinnumálaþing í upphafi nýs árs og er formanni og starfsmanni falið að undirbúa þingið í samstarfi við aðila innan atvinnulífsins.
Að síðustu styður atvinnumálanefnd þá forgangsröðun bæjarráðs í fjárfestingaráætlunum sveitarfélagsins fyrir næsta ár þar sem sérstaklega verði horft til mannaflsfrekra verkefna eins og viðhalds og umhverfisverkefna. Nefndin leggur áherslu á að tryggðir verði fjármunir til að klára fyrsta áfanga Striksins, norðan Fagradalsbrautar enda styður sú framkvæmd hlutverk Egilsstaða sem miðstöð verslunar og þjónustu á Austurlandi. Þá leggur nefndin til að fjármunir verði tryggðir til uppbyggingar á nýju tjaldsvæði við miðbæ Egilsstaða, en verkefnið er bæði mannaflafrekt sem og mikilvægt umhverfisverkefni sem styður við verslun og þjónustu til framtíðar.