Allir geta tekið þátt í mótun menntastefnu

Hafin er vinna við mótun menntastefnu fyrir Fljótsdalshérað og eru miklar væntingar bundnar við árangur þess starfs. Vinnan hófst með opnum íbúafundi sem haldinn var á Hótel Héraði 10. janúar. Þeir sem misstu af fundinum geta þó enn komið hugmyndum og sjónarhornum sínum á framfæri.

Á fundinum þann 10. janúar síðast liðinn tóku fundargestir virkan þátt í að draga fram þau áhersluatriði sem þeir telja mikilvægt að unnið verði með í stefnumótunarvinnunni. Eins og fyrr segir hafa þeir, sem misstu af því tækifæri sem þarna gafst til að koma hugmyndum og sjónarhornum sínum á framfæri og hafa þannig áhrif á stefnumótun sveitarfélagins í menntamálum, enn tækifæri til að bæta úr því. Hér, á heimasíðu sveitarfélagsins, er hægt að senda ábendingarnar sem notaðar verða við mótun menntastefnu sveitarfélagsins.

Menntastefnan mun byggja á þeirri sýn og stefnu sem bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs hefur nýverið samþykkt fyrir sveitarfélagið. Menntun er mikilvægur grundvöllur til að sú framtíðarsýn sem starfsemi sveitarfélagsins byggir á nái fram að ganga því tryggja þarf að í sveitarfélaginu búi fólk með viðeigandi færni og þekkingu hverju sinni.