Álagning og innheimta fasteignagjalda 2010

Nú fara álagningarseðlar fasteignagjalda frá Fljótsdalshéraði að berast inn um bréfalúguna hjá eigendum fasteigna.  Eins og tilkynningar um nýtt fasteignamat sem Fasteignamat ríkisins sendi út í júlí 2009 báru með sér, varð nokkur breyting á mati á íbúðarhúsnæði og þá sérstaklega í þéttbýli. Mat húsnæðis hækkaði því misjafnlega og lækkaði jafnvel í sumum tilfellum. Þar sem fasteignagjöldin reiknast flest út frá fasteignamati húss og lóðar breyst þau í mörgum tilfellum nokkuð frá síðasta ári.  Helstu breytingar felast í hækkun álagningaprósentu á atvinnuhúsnæði, en undanfarin ár hefur hún verið sú lægsta á landinu. Einnig verður nokkur breyting varðandi sorpgjöld í framhaldi af nýju fyrirkomulagi á sorpflokkun og sorphirðu sem tekið var upp  á síðasta hausti.  Að tillögu umhverfis- og héraðsnefndar ákvað bæjarstjórn að lækka sorpgjald á íbúðarhúsnæði um 3% eða rúmar 600 krónur og sama gildir hlutfallslega um sorpgjald af sumarbústöðum.  Ekki verður lengur hægt að sækja um hálfa sorphirðu og greiða því allir íbúðareigendur sama sorpgjald kr. 19.600. 

Fyrir dyrum stendur að Fljótsdalshérað sendi út alla greiðslu- og álagningarseðla í rafrænu formi og birtast þeir þá í íbúagátt sveitarfélagsins, sem er rafrænn og persónulegur aðgangur íbúa sveitarfélagsins að stjórnsýslu þess. Efir sem áður fer greiðsla fasteignagjalda fram í gegnum heimabanka eða í gegnum greiðsluþjónustu bankanna. Í marsmánuði verður kynningarefni um notkun íbúagáttarinnar sent inn á öll heimili í sveitarfélaginu en fyrirhugað er að hún verði tekin í notkun í apríl.