Nú er verið að vinna að álagningu fasteignagjalda hjá Fljótsdalshéraði fyrir árið 2012. Samkvæmt ákvörðun bæjarstjórnar um álagningarprósentur, gjaldskrár og fjölda gjalddaga, sem samþykkt var á fundi 14. desember sl. verður gjalddögum nú fjölgað um einn frá því sem var, eða í 9. Fyrsti gjalddagi verður nú 1. febrúar og síðasti gjalddaginn 1. október. Ekki eru um miklar breytingar að ræða á gjaldskrám, en breytingar á mati eigna hafa áhrif á útreikning fasteignagjalda af viðkomandi eign.
Álagningarseðlar fasteignagjalda munu berast húseigendum nú í lok mánaðarins, en þá verður einnig hægt að finna í rafrænni útgáfu á íbúagátt á heimasíðu Fljótsdalshéraðs og einnig á vef Þjóðskrár: Island.is. Í báðum tilfellum þarf fólk þá að hafa tiltækt lykilorð til að geta skoðað seðlana.
Útsending greiðsluseðla verður með sama hætti og verið hefur undanfarin misseri.