Áhugi eykst á listgreinum og listnámi

Á opnum kynningarfundi sem haldinn var að Hlymsdölum mánudaginn 3. maí kynnti Jón Ingi Sigurbjörnsson kennari í ME samantekt úr könnun um um íþrótta- og frístundahegðun nemenda í 4. - 10. bekk grunnskóla á Fljótsdalshéraði. En könnunin var unnin af Jóni ásamt nemendum á félagsfræðiskor ME. Könnunin var gerð að frumkvæði menningar- og íþróttanefndar og jafnréttisnefndar Fljótsdalshéraðs, í góðri samvinnu við grunnskólana. Nemendur svöruðu könnuninni í skólunum og var svörun því mjög góð. Sambærileg könnun var gerð vorið 2008.

Fá áberandi frávik komu í ljós frá fyrri könnun, þó ýmislegt megi lesa út úr samanburðinum. Íþróttaiðkun á skipulögðum íþróttaæfingum utan skólaíþrótta virðist heldur minnka og vera nokkuð mismunandi milli árganga. Aftur á móti er þátttaka í ýmsu öðru tómstundastarfi að aukast og má þar sérstaklega nefna skátastarfið. Einnig kalla krakkarnir mjög á aukið framboð á listgreinum og listnámi og virðist Þjóðleikur og þátttakan í því verkefni hafa fangað hug margra.

Einnig var spurt um tölvuleikjanotkun og virðist sem yngri árgangarnir séu lengur við tölvuskjáinn á degi hverjum, en þeir sem eldri eru. Einnig komu fram vísbendingar um mjög mikið „skjálífi" hjá nokkrum einstaklingum, þar sem setið er við tölvuskjáina meira en 5 klukkustundir á degi hverjum.

Með svona könnun fást margar vísbendingar, bæði jákvæðar og neikvæðar og voru þær töluvert ræddar á kynningarfundinum. Einnig eru þær ágætt veganesti fyrir pólitíska fulltrúa og stjórnendur sveitarfélagsins, sem og alla þá sem vinna með börnum og unglingum.

Helstu niðurstöður úr könnuninni er að finna hér á heimasíðu sveitarfélagsins, eða undir Stjórnsýsla>Útgefið efni>Ýmsar skýrslur.