Áhrif þjóðvega í íbúðabyggð á ferðamáta nemenda í skólann

Nemendur í Egilsstaðaskóla tók þátt í rannsókn um áhrif þjóðvega í íbúðabyggð á ferðamáta nemenda í …
Nemendur í Egilsstaðaskóla tók þátt í rannsókn um áhrif þjóðvega í íbúðabyggð á ferðamáta nemenda í skólann.

Egilsstaðaskóla barst á vordögum MS-ritgerð Ernu Báru Hreinsdóttur um ferðavenjur grunnskólabarna á landsbyggðinni. Ritgerðin var meistaraprófsverkefni við Landbúnaðarháskóla Íslands. Erna Bára rannsakaði ferðamáta grunnskólabarna í nokkrum þéttbýliskjörnum á landsbyggðinni þar sem þjóðvegur liggur um íbúðabyggð. Nemendur í Egilsstaðaskóla tók þátt í rannsókninni.

Niðurstöður Ernu eru áhugaverðar fyrir Egilsstaðabúa. Í Reykjavík ferðast um 84% grunnskólabarna með virkum hætti í skólann, þ.e. gangandi eða á hjóli. Miðað er við búsetu innan við 800m frá grunnskóla. Á landsbyggðinni er hlutfall nemenda sem ferðast með virkum hætti í skólann talsvert lægra eða 66%.

Á Egilsstöðum þarf hluti nemenda að þvera þjóðveg á leið sinni í skólann, en bæði Seyðisfjarðarvegur og Norðfjarðarvegur kljúfa íbúðabyggðina. Hlutfall nemenda sem koma gangandi eða hjólandi í skólann er 60% í heildina. Sé litið nánar á þann hóp sem þarf að þvera þjóðveg ferðast 38% gangandi eða hjólandi í skólann. Á hinn bóginn ferðast 77% þeirra sem ekki þurfa að þvera þjóðveg með virkum hætti í skólann. Það hefur því töluverð áhrif á ferðamáta nemenda að þurfa að þvera þjóðveg á leið sinni í skólann.

Í rannsókninni kom fram að 40-100% aukning hefur orðið á umferð á öllum þjóðvegum um Egilsstaði frá árinu 2000.