Áfram unnið að örnefnaskráningu

Nú er liðið rúmt ár síðan Fljótsdalshérað og Landmælingar Íslands gerðu með sér samstarfssamning um að skrá örnefni á Fljótsdalshéraði og koma þeim í landfræðilegt upplýsingakerfi Landmælinga Íslands. Frá sama tíma hafa fjölmargir einstaklingar, undir forystu Gyðu Vigfúsdóttur hjá Félagi eldri borgara á Fljótsdalshéraði, komið að því að skrá örnefnin í gagnagrunn LMÍ eða á kort af einstökum jörðum sem Landmælingar hafa útvegað. Samstarf þessara aðila er til að tryggja að örnefni og staðsetning þeirra glatist ekki og til að miðla upplýsingum um þau til samfélagsins.

Í síðustu viku voru haldin tvö námskeið á Egilsstöðum fyrir þá sem hafa verið að skrá örnefni undanfarin misseri og nýja aðila sem áhuga hafa á því að byrja skráningu núna. Það voru þær Bjarney Guðbjörnsdóttir og Þórey Dalrós Þórðardóttir frá Landmælingum sem héldu námskeiðið. Á þessari vefsíðu má sjá örnefnin sem eru uppfærð úr gagnagrunni LMÍ tvisvar á ári, 17. júní og 24. desember.

Á myndinni má sjá annan námskeiðshópinn og leiðbeinendurna frá LMÍ.