Áfram frítt í strætó

Sumaráætlun almenningssamganga á Fljótsdalshéraði tók gildi frá og með 1. júní 2007. Í júní, júlí og ágúst verða farnar níu ferðir á dag milli Egilsstaða og Fellabæjar. Fyrsta ferð frá Fellabæ hefst kl. 7.35 en síðustu ferð lýkur kl.19.25. Ekið verður á einum bíl alla virka daga.

Við gerð áætlunar voru tímarsetningar meðal annars miðaðar við starfsemi íþróttafélaga, vinnuskóla, og skólagarða til þess að þjónustan komi til með að nýtast þessum notendum sem best. Einnig er gert ráð fyrir að vinnuskólinn komi til með að nýta sér almenningssamgöngur við vinnu sína til þess að komast á milli svæða.

Sérstök athygli er vakin á að farþegar geta óskað eftir því við bílstjóra almenningsvagnanna að þeir stöðvi á öðrum stöðum en merktum stoppistöðvum og  að þeir taki farþega í næstu ferð til baka þ.e.s. innan áætlunarleiðar. Í tengslum við frístundaiðkun barna og unglinga verður kappkostað að stöðva almenningsvagninn sem næst þeim stað sem frístundaiðkun fer  fram.

Eins og áður hefur komið fram er ókeypis að ferðast með almenningsvögnunum á Fljótsdalshéraði.

Almenningssamgöngur í dreifbýli falla niður í sumar, þ.e. þá mánuði sem skólastarf liggur niðri. Um leið og starfsemi  grunnskóla hefst á haustmánuðum verður almenningssamgögnum fram haldið í dreifbýli. 

Íbúar Fljótsdalshéraðs og aðrir sem þar dvelja eru hvattir til að nýta sér þjónustuna !

Sumaráætlunin er hér.