Afrakstur leikskólasmiðju og myndir úr barnabókum

Laugardaginn 12. október gefst gestum og gangandi tækifæri til að skoða tvær sýningar fyrir börn í Sláturhúsinu menningarsetri á Egilsstöðum milli klukkan 11 og 15.

Á annarri hæð er hægt að skoða afrakstur Smiðju fyrir leikskólabörn á Fljótsdalshéraði sem fram fór föstudaginn 11. október í Sláturhúsinu. En þá kom næst elsti árgangur leikskólabarnanna saman og vann skúlptúra upp úr þremur sígildum ævintýrum. Foreldrar barnanna eru sérstaklega velkomin og hvött til að mæta með börnum sínum.

Á sýningunni „Þetta vilja börnin sjá“, á fyrstu hæð, er hægt að skoða myndskreytingar úr íslenskum barnabókum sem komu út á árinu 2018. Þar má meðal annars sjá teikningar Ryoko Tamura sem myndskreytti bókina Stelpan sem týndi bróður sínum í ruslinu, teikningar eftir Sigrúnu Eldjárn og Rán Flygenring, sem myndskreytti meðal annars bækurnar Fuglar og Skarphéðinn Dungal. Sýningin í ár er sú sautjánda og er vel til þess fallin að sýna þá fjölbreytni og fagmennsku sem er að finna í íslenskri barnabókaútgáfu.

Þetta vilja börnin sjá og Leikskólasmiðjan eru hluti af BRAS, menningarhátíð barna og ungmenna á Austurlandi.

https://www.facebook.com/events/2460075364109991/