Áformum um niðurskurð mótmælt harðlega

Almennur borgarafundur, haldinn á Egilsstöðum 10. okt. 2010, mótmælir harðlega fyrirhuguðum niðurskurði á framlögum til heilbrigðisstofnana á starfssvæði Heilbrigðisstofnunar Austurlands.

Samkvæmt framlögðum fjárlögum fyrir 2011 hefur verið boðaður um 22 % niðurskurður á heildarframlögum til HSA, sem rekur starfsstöðvar í 11 byggðarlögum. Auk þess er fyrirhugaður 52 % niðurskurður á sjúkrasviði stofnunarinnar. Áformin eru ekkert annað en aðför að heilbrigðisþjónustunni á starfssvæði HSA, afhjúpar virðingarleysi heilbrigðisyfirvalda til íbúa í fjórðungnum og skerðir velferðarþjónustu á svæðinu.

Ekki liggur fyrir mat á samfélagslegum áhrifum, sem boðaður niðurskurður mun hafa í för með sér á Austurlandi. Vafalaust munu áformin leiða til aukins atvinnuleysis með tilheyrandi kostnaði fyrir ríkissjóð og íbúafækkunar með tilheyrandi tekjutapi fyrir sveitarsjóði. Þá er ótalinn sá öryggisþáttur sem skert aðgengi að heilbrigðisþjónustu í heimabyggð er, að ógleymdum auknum kostnaði íbúanna við að sækja þjónustu um lengri veg.

Borgarafundurinn átelur stjórnvöld fyrir samráðsleysi við ákvörðun um áformaða grundvallarbreytingu á heilbrigðisþjónustu í landshlutanum og gerir þá kröfu að heilbrigðisráðherra sjái til þess að horfið verði frá boðuðum áformum. Jafnframt er heitið á alþingismenn NA - kjördæmis að beita sér fyrir að endurskoðun á fjárheimildum til HSA, eins og þau liggja nú fyrir, þannig að ekki verði gengið lengra í niðurskurði hér, en í málaflokknum í heild.

Ályktuninni fylgir svohljóðandi greinargerð (tvær samþykktir aðalfundar SSA 24. og 25. sept. 2010):

Ályktun um heilbrigðisþjónustu.
44. aðalfundur SSA haldinn á Breiðdalsvík 24. og 25. september 2010, skorar á yfirvöld heilbrigðis- og fjármála, og ríkisstjórn Íslands, að standa vörð um þá heilbrigðisþjónustu sem nú er veitt í landsfjórðungnum. Fundurinn leggur áherslu á að haldið verði áfram að efla og styrkja heilbrigðiskerfið á Austurlandi sem einn mikilvægasta grunnþátt nauðsynlegrar þjónustu við íbúa á svæðinu, ekki síst á jaðarsvæðum þar sem samgöngur eru erfiðar. Íbúar Austurlands eiga skýlausan rétt, samkvæmt lögum á góðu aðgengi að úrvals heilbrigðisþjónustu, eins og aðrir landsmenn.

Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA)
44. aðalfundur SSA haldinn á Breiðdalsvík 24. og 25. september 2009 skorar á Alþingi, fjárveitingavaldið og yfirvöld heilbrigðismála að sjá til þess að fjárframlög til stofnunarinnar taki mið af raunverulegri starfsemi hennar og getu. Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA), hefur þrátt fyrir niðurskurð á fjárframlögum á síðustu misserum tekist að halda uppi nauðsynlegri þjónustu, en vegna takmarkanna á samnýtingu starfsfólks og aðstöðu eiga heilbrigðisstofnanir í dreifbýli erfiðara með að svara kalli um hagræðingu og lækkun útgjalda en sambærilegar stofnanir sem starfa í þéttbýli. Heilbrigðisstofnun Austurlands hefur á undanförnum árum, með aukinni tækjavæðingu, getu og tiltrú á stofnunina, orðið færari um að sinna stærri hluta þeirrar heilbrigðisþjónustu sem áður var sinnt á höfuðborgarsvæðinu, með tilheyrandi tilkostnaði ríkisins og þeirra íbúa sem á þjónustunni þurfa að halda, enda er það þjóðhagslega hagkvæmt að sem mest af heilbrigðisþjónustunni sé veitt í nærumhverfi með staðbundinni grunnþjónustu og farandsérfræðingum.