Afmælishátíð og tónleikar á Eiðum

Í meira en heila öld var Eiðaskóli ein helsta menningarstofnun Austurlands. Þangað sóttu fjölmargir unglingar af öllu Austurlandi, og reyndar landinu öllu, menntun sína og eiga margir afar góðar minningar þaðan. Búnaðarskólinn á Eiðum tók til starfa árið 1883 og starfaði hann allt fram til ársins 1917 þar til  Alþýðuskólinn á Eiðum var stofnaður. Alþýðuskólinn var sá fyrsti sinnar gerðar í landinu, þ.e. hann var fyrsti Alþýðuskólinn sem stofnaður var með lögum og rekinn af opinberu fé.

Skólastjórar Búnaðarskólans og Alþýðuskólans voru valinkunnir merkisberar og mótuðu þann mannræktaranda sem einkenndi skólastarfið þar lengi vel og Benedikt Gíslason frá Hofteigi kallaði andann frá Eiðum.  Þórarinn Þórarinsson skólastjóri tók síðar upp kjörorðið manntak, mannvit, manngöfgi og lét setja í merki skólans.  Margir kalla þetta virðulega merki M-in þrjú og er nú m.a. hægt að kaupa Eiðaboli með merkinu hjá stjórn Eiðavina sem verða að sjálfsögðu til sölu á afmælishátíðinni sem nú stendur fyrir dyrum á Eiðum.

Eiðaskóli var lagður niður árið 1995 er hann var yfirtekinn af Menntaskólanum á Egilsstöðum að skipan menntamálaráðuneytisins en 1998 var skólahaldi á Eiðum hætt fyrir fullt og allt. Þá tóku gamlir Eiðanemar sig til með Vilhjálm Einarsson í fararbroddi og stofnuðu félagsskap Eiðavina, sem hafði það m.a. að markmiði að standa vörð um framtíð Eiða. Nú fimmtán árum síðar er stjórn Eiðavina enn tilbúin að leggja sitt af mörkum til að efla Eiðastað og reyna að vekja hann upp af svefni. Í stjórn Eiðavina sitja nú Bryndís Skúladóttir formaður Egilsstöðum (frá Borgarfirði), Ásgerður Ásgeirsdóttir gjaldkeri Kópavogi (úr Breiðdal), Hlynur Gauti Sigurðsson ritari Egilsstöðum, Björn Jóhannsson meðstjórnandi Mosfellsbæ (frá Fáskrúðsfirði), Jóhann G. Gunnarsson meðstjórnandi Fellabæ (úr Hróarstungu), Lilja Sigurðardóttir varamaður Eiðum (frá Höfn) og Steinunn Sigurðardóttir varamaður Reyðarfirði (frá Eskifirði).

Eiðavinir ætla að minnast þess með mikilli tónlistarveislu á Eiðum nú í september að 130 ár eru liðin frá því að Eiðaskóli var stofnaður. Skólinn var m.a. þekktur fyrir mikið tónlistarlíf og þótti stjórn Eiðavina því tónlistarhátíð falla einkar vel að afmælishaldinu.

Stjórn Eiðavina hefur fengið til liðs við sig fjölmargar hljómsveitir sem gerðu garðinn frægan á Eiðum á seinni hluta síðustu aldar og munu hljómsveitir allt frá sjöunda áratugnum skemmta tónleikagestum alla helgina. Tónlistarmenn hafa á síðustu vikum hittst og stillt saman strengi sína og nokkrir eru búnir að panta stúdío til að taka upp lag í tilefni endurkomunnar.

Mikil stemning og tilhlökkun er meðal hljómsveitarmeðlima en margar þær hljómsveitir sem koma munu fram héldu uppi  dansleikjum í skólanum í áratugi. En það er ekki síður spenningur hjá aðdáendum hljómsveitanna sem nú fá kjörið tækifæri til að mæta á ný í Eiða og upplifa gömlu góðu Eiðastemninguna.

Fjölbreytt tónlistardagskrá verður alla helgina. Bjartmar Guðlaugsson, íbúi á Eiðum, ríður á vaðið á föstudagskvöldið á pöbbakvöldi í matsalnum og sér um tónlistina fram á nótt með dyggri aðstoð fyrrum Eiðanema. Fleiri íbúar á Eiðum og nágrenni taka virkan þátt í tónlistardagskránni þessa helgi.

Aðaltónleikadagurinn er á laugardaginn en hátíðin verður formlega sett klukkan 12:00 á planinu fyrir utan matsalinn á Eiðum. Fljótlega upp úr því hefst mikil tónlistarveisla sem stendur langt fram á kvöld með smá hléum. Eiðahljómsveitirnar koma fram í hátíðarsalnum hver á fætur annarri og sjá valinkunnir Eiðanemar um kynningu og sprell á sviðinu og kynna hljómsveitirnar. Eftir tónleikana verður dansleikur í hátíðarsalnum og gömludansaball í matsalnum.

Á sunnudagsmorgun klukkan 10 verður farið í sögugöngu um Eiðastað með Helga Hallgrímssyni en klukkan 11.30 hefst hátíðardagskrá í salnum þar sem Kristinn Kristjánsson, fyrrverandi skólastjóri, heldur hátíðarræðu og margt fleira skemmtilegt verður þar á dagskrá.
Klukkur Eiðakirkju hringja til poppmessu klukkan 13 þar sem hinir landsþekktu Eiðanemar Esther Jökuls, Jónas Sig. og Magni koma fram. Guðfræðingurinn Guðrún Á. Einarsdóttir prédikar í upphafi messu.  Hægt verður hægt að kaupa sig sérstaklega inn á þessa sunnudagstónleika.

Afmælishátíðinni verður slitið formlega kl. 14  en að því loknu verður kaffihlaðborð í matsalnum þar sem m.a. verður hægt að smakka á myndarlegri afmælistertu.
Hægt er að panta miða á tónleika, í gistingu og mat á Eiðum þessa helgi en allar upplýsingar um hátíðina má finna í Dagskránni 29.ágúst-4.sept. og gamlir Eiðanemar geta nálgast upplýsingar á facebook síðu Samtaka Eiðavina.

Auglýsingaplaggöt verða hengd upp víðsvegar um Austurland á næstu dögum. Hægt er að skrá sig í gistingu, mat og á tónleika á  skraning@eidavinir.is en nánari upplýsingar má finna hjá Bryndísi í síma 861 6910 og Gerðu í síma 849 6072 eftir  kl. 16.
Hátíðin er opin öllum en stjórn Eiðavina hvetur sérstaklega Eiðanema á öllum aldri, íbúa, kennara og annað starfsfólk skólans að mæta í Eiða þessa afmælishelgi og fylla staðinn lífi og fjöri á ný.

Fyrir hönd stjórnar Eiðavina.
Bryndís Skúladóttir.