Áfengisneysla fer minnkandi meðal ungmenna á Fljótsdalshéraði

Út er komin skýrsla um vímuefnaneyslu ungs fólks á Fljótsdalshéraði. Rannsóknin náði til nemenda í áttunda, níunda og tíunda bekk í sveitarfélaginu.

 Horft er til neyslu ungmenna á tóbaki, áfengi og ólöglegum vímuefnum. Samanburður er svo gerður við önnur sveitarfélög og er markmið að kanna hversu algeng vímuefnaneysla er í aldurshópnum. Gögnin sem skýrslan byggir á eru fengin úr viðamiklum könnunum Rannsókna og greiningar sem lagðar hafa verið fyrir nemendur í efstu bekkjum grunnskóla á Íslandi á árunum 1999-2008.

Sé farið í gegnum niðurstöður skýrslunnar má sjá jákvæða þróun hvað varðar reykingar. Árið 2007 sýndu niðurstöður að 13% ungmenna í 10. bekk  reyktu tóbak daglega. Það var yfir landsmeðaltali. Nú í ár hefur hins vegar talsvert dregið úr daglegum reykingum 10. bekkinga því 4% nemenda reykja daglega.  Neysla áfengis er vel undir landsmeðaltali meðal ungmenna í sveitarfélaginu. Mikill árangur hefur náðst í þeim efnum frá því árið 2004 þegar neysla áfengis meðal nemenda var langt yfir landsmeðaltali. Áfengisneysla hefur farið minnkandi og má nefna að 36% tíundu bekkinga höfðu orðið ölvaðir síðustu 30 daga fyrir könnun árið 2004. Nú á þessu ári er það hlutfall komið niður í 13%.

Helga Guðmundsdóttir fræðslufulltrúi hjá Fljótsdalshéraði segir að í heild sé niðurstaða könnunarinnar jákvæð miðað við síðasta ár. „Við tökum eftir jákvæðri þróun hvað tóbaks- og áfengisneyslu varðar meðal nemenda grunnskólunum. Áður mátti sjá að ungmenni byrjuðu mörg hver að neyta áfengis á mennstaskólaböllum. Það hefur dregið úr því og það er jákvæð þróun. Næsti þáttur sem þarf að taka á eru svokölluð foreldralaus partí. Hvað tóbaksneyslu varðar er áhyggjuefni hversu munn- og neftóbaksneysla er algeng. Þar erum við yfir landsmeðaltali. Það virðist vera ákveðin menning í kringum boltagreinar sem þarf að taka á. Við þurfum að fá fyrirmyndirnar í lið með okkur til þess að vinna gegn neyslu nef- og munntóbaks.

Sjá má skýrsluna í heild með því að smella hér.