Ævintýri hjá 8. bekk

Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs hefur hleypt af stað tilraunaverkefninu "Ævintýrið Leikmynd" með 8. bekk Egilsstaðaskóla. En bekkurinn, sem telur alls fjörtíu hressa 13 ára krakka, var valinn af verknámskennurum sínum og verður verkefnið nokkurs konar útskriftarverkefni úr skyldunáminu í Egilsstaðaskóla. Tilgangur verkefnisins er að vekja athygli þátttakenda og áhorfenda á mikilvægi leikmynda í leik- og danssýningum.

Krakkarnir, ásamt fimm kennurum sínum, komu í vikunni í fyrsta kennslutímann á þessari vorönn í Sláturhúsið og hittu þar Ingunni Þráinsdóttur, forstöðumann menningarmiðstöðvarinnar, sem lýsti verkefninu fyrir þeim í máli og myndum. Krakkarnir munu velja sér fjögur ævintýri og hanna, smíða, mála, sauma og baka fjórar leikmyndir út frá þeim. Afraksturinn verður svo sýndur um miðjan febrúar á listsýningu í hringsalnum á efri hæð Sláturhússins. Það verður því spennandi að fylgjast með sköpunargleði nemendanna næstu vikurnar. Það eru verknámskennararnir  Dagur Emilsson, Kristín Hlíðkvist Skúladóttir, Ester Kjartansdóttir og Sigrún Kristjánsdóttir sem ásamt starfsmanni menningarmiðstöðvarinnar munu vinna að verkefninu með nemendum 8. bekkjar.