Æskulýðsstefna Fljótsdalshéraðs

Drengur í Selskógi fyrir nokkrum árum.
Drengur í Selskógi fyrir nokkrum árum.

Snemma sumars samþykkti bæjarstjórn nýja æskulýðsstefnu sveitarfélagsins sem hafði verið í vinnslu í eitt ár.

Í starfshópi um æskulýðsstefnu sátu Aron Steinn Halldórsson, Ingunn Bylgja Einarsdóttir, Margrét Dögg Guðgeirsdóttir Hjarðar, Sigurbjörg Hvönn Kristjánsdóttir og Þorgeir Arason. Með hópnum starfaði Bylgja Borgþórsdóttir, verkefnastýra hjá Fljótsdalshéraði. Að auki var haft samráð við m.a. nemendaráð, ungmennaráð, deildarstjóra sveitarfélagsins og fólk innan íþróttahreyfingarinnar við gerð stefnunnar. Þá fór stefnan fyrir allar nefndir til umsagnar.

Leiðarljós æskulýðsstefnu Fljótsdalshéraðs er fjölskyldan og það lykilhlutverk sem hún gegnir í þroska og velferð barna. Í æskulýðsstefnunni er átt við fjölskylduna í sinni fjölbreyttustu mynd. Sveitarfélagið vinnur að eflingu fjölskyldunnar, í hvaða formi sem hún kann að birtast. Æskulýðsstefnan leggur áherslu á að börn og ungmenni búi við góða líkamlega og andlega heilsu og hagsmunir þeirra séu hvarvetna í fyrirrúmi. Skal útdeiling fjármagns, samvinna við tómstundafélög og öll fræðsla vinna að því markmiði að þátttaka, áhugi og gleði í leik og tómstundum sé metin ofar öðru sem mælikvarði á árangur.

Æskulýðsstefnu Fljótsdalshéraðs er ætlað að vera hornsteinn forvarnavinnu sveitarfélagsins. Henni er ætlað að leggja grunn að starfsemi á þess vegum fyrir börn og unglinga og samvinnu við þá sem sinna tómstundastarfi barna og unglinga innan þess. Það er á ábyrgð íþrótta- og tómstundanefndar að fylgja stefnunni eftir í samstarfi við starfsfólk fjölskyldusviðs og aðrar nefndir sveitarfélagsins. Fljótsdalshérað setur sér að vinna eftir þessari stefnu við gerð starfs- og fjárhagsáætlana.

Hægt er að lesa æskulýðsstefnuna hér á vef Fljótsdalshéraðs