Aðhefst ekki frekar en vill þó fylgjast með

Á síðasta fundi bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs, þann 21. apríl, var tekið fyrir bréf frá Eftirlitsnefnd um fjármál sveitarfélaga, en nefndin hefur verið með fjármál nokkurra sveitarfélaga til skoðunar eftir mikinn hallarekstur þeirra árið 2008 í kjölfar bankakreppunnar og falls íslensku krónunnar. Á fundi bæjarstjórnarinnar var eftirfarandi bókun gerð um málið:

„Í ljósi hallareksturs á árinu 2008 hefur Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga verið með rekstur sveitarfélagsins til athugunar. Með bréfi sínu þann 13. apríl sl. tilkynnir nefndin að hún muni ekki aðhafast frekar í málinu. Ákvörðunin byggir á þeim gögnum sem sveitarfélagið hefur lagt fram þar sem m.a. er gert ráð fyrir viðsnúningi í rekstri og að afgangur verði af rekstrinum. Eftirlitsnefndin muni þó áfram fylgjast með framvindu rekstrar og fjárhagsáætlunar."
Ofangreind bókun borin upp og samþykkt samhljóða.