Aðalskipulag, umhverfis- og atvinnumál

 Í gær voru undirritaðir samningar um þrjú verkefni við ráðgjafafyrirtækið Alta. Hér er um að ræða gerð aðalskipulags, mótun stefnu í atvinnumálum og mótun umhverfisstefnu ...

og aðlögun og endurskoðun á gildandi stefnu sveitarfélagsins að markmiðum um sjálfbæra þróun.

Það voru þeir Árni Geirsson frá Alta og Eiríkur B. Björgvinsson sem undirrituðu samningana.

Í aðalskipulagi hvers sveitarfélags kemur fram hvert skal stefna, hvernig á að standa vörð um lífs- og landgæði og hvar skuli sækja fram.  Í þeirri framtíðarsýn ber, samkvæmt skipulags- og byggingarlögum, að horfa langt fram í tímann, með hagsmuni komandi kynslóða að leiðarljósi.  Það fellur vel að áherslum bæjaryfirvalda sem vilja leggja aukna áherslu á að þróun sveitarfélagsins verði með sjálfbærum hætti, ekki aðeins vegna lagaskyldu heldur ekki síður vegna þeirra umhverfisgæða sem marka sérstöðu Fljótsdalshéraðs. Áætlað er að nýtt aðalskipulag verði tilbúið undir lok næsta árs. 

Á síðasta ári var samþykkt Stefna Fljótsdalshéraðs, sem byggir á þremur meginstoðum; þekkingu, þjónustu og velferð.  Nú hefur verið ákveðið að bæta við fjórðu stoðinni, umhverfi og að endurskoða hinar þrjár með hliðsjón af áherslum sjálfbærrar þróunar. Umhverfis- og náttúruverndarnefnd hefur skipað starfshóp sem vinna mun að þessu verkefni.  Þegar þeirri vinnu lýkur verður hin endurskoðaða stefna jafnframt Staðardagskrá 21 fyrir Fljótsdalshérað. 

Loks er að hefjast á sama tíma, vinna við mótun atvinnustefnu á vegum atvinnumálanefndar.

Segja má að nú sé því að hefjast viðamikil áframhaldandi mótun framtíðarsýnar og stefnu fyrir Fljótsdalshérað þar sem leitast er við að flétta sem best saman öll ofangreind verkefni. Þannig er til dæmis gert ráð fyrir að afrakstur atvinnustefnu og Staðardagskrár 21 verði mikilvægt innlegg við gerð aðalskipulagsins.

Lögð verður áhersla á samstarf við íbúa sveitarfélagsins í öllum þessum verkefnum, meðal annars með íbúafundum, og er það von bæjaryfirvalda að þegar ný framtíðarsýn og aðalskipulag fyrir Fljótsdalshérað liggur fyrir, verði hvoru tveggja í góðu samræmi við vilja, væntingar og metnað íbúanna.