Að rísa og falla: Lokasýning ungmennaskiptaverkefnis

Írski ungmennahópurinn við Hengifoss í vikunni
Írski ungmennahópurinn við Hengifoss í vikunni

Lokasýning írsk-íslensks ungmennaskiptaverkefnis verður í Sláturhúsinu á Egilsstöðum á morgun. Hóparnir hafa tekist á við bæði andlegar og líkamlegar áskoranir sem þau gera skil á lokasýningunni.

Írski hópurinn kom austur á sunnudagskvöld og setti upp bækistöðvar sínar í Sláturhúsinu. Strax á mánudagsmorgni var haldið á Óbyggðasetrið að Egilsstöðum í Fljótsdal.

Árla þriðjudags var haldið þaðan í fossagönguna, 16 km leið meðfram Jökulsá í Fljótsdal inn að Laugarfelli. Gangan reyndi á bæði andlega og líkamlega og því urðu margir fegnir þegar komið var í pottana í Laugarfelli en höfðu upplifað ógleymanlegan dag í austfirskri náttúru.

Um nóttina var gist í Snæfellsskála og nánasta umhverfi hans skoðað í morgunskímunni áður en haldið var aftur í Egilsstaði með viðkomu hjá Hengifossi.

Síðan seinni part miðvikudags hefur hópurinn dvalið í Sláturhúsinu við undirbúning lokasýningarinnar. Hún endurspeglar upplifanir hópsins í vikunni sem sameiginlega hefur sigrast á þeim hindrunum sem á vegi hans hafa orðið enda vísar yfirskrift sýningarinnar „Að falla og rísa“ (Falling&Rising) til þess.

Írski hópurinn kemur frá KFUM&K í Cobh á suðurströnd Írlands, skammt frá Cork, næststærstu borg landsins. Í honum eru átta ungmenni og þrír leiðbeinendur.

UÍA er íslenski samstarfsaðilinn. Íslensku ungmennin eru sjö og þeim fylgja tveir leiðtogar.

Sýningin stendur frá 13-15 laugardaginn 27. ágúst. Frítt er inn og léttar veitingar í boði.

Hópurinn hefur haldið út bloggi og er líka með Facebooksíðu sem gaman er að skoða.