Ábyrgð ungs fólks á Austurlandi - Ungmennaþing á Egilsstöðum

Margrét Gauja Magnúsdóttir í pontu í Valaskjálf
Margrét Gauja Magnúsdóttir í pontu í Valaskjálf

Vel heppnað ungmennaþing var haldið í Valaskjálf á Egilsstöðum þann 19. apríl 2017. Skipuleggjendur voru meðlimir Ungmennaráðs Fljótsdalshéraðs.
Áherslumál þingsins voru valdefling ungs fólks á Austurlandi og samfélagið okkar, ábyrgð samfélagsins á málefnum ungs fólks.

Á þinginu tóku til máls Margrét Gauja Magnúsdóttir, fyrrverandi varaþingmaður og forseti bæjarstjórnar í Hafnarfirði, ásamt Degi Skírni Óðinssyni og Margréti S. Árnadóttur, fulltrúum félagsins Ungt Austurland. Margrét Gauja ræddi meðal annars um leiðir fyrir ungt fólk til að taka sér vald og láta sína rödd heyrast og veittu bæði hún og fulltrúar Ungs Austurlands þinggestum innblástur til þess að sýna þau áhrif sem ungt fólk getur og hefur haft.

Góðar umræður áttu sér stað í umræðuhópum undir stjórn Margrétar Gauju, Dags Skírnis og Margrétar og er ályktunar þingsins að vænta á næstunni.

Meðlimir ungmennaráðsins voru að vonum ánægðir með framkvæmd þingsins og hvernig til tókst, þó svo að þeir vonist til þess að sjá enn fleiri ungmenni á næsta þingi, sem vonandi verður árlegt. Þá telur ráðið að ungmennaþing sem þessi sé nauðsynleg til þess að sem flest ungmenni geti látið sína rödd heyrast.