Áætlun um ásýnd, skipulag og hönnun umhverfis

Á fundi bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs, 19. maí, var samþykkt tillaga skipulags- og mannvirkjanefndar um að gerð verði áætlun um ásýnd, skipulag og hönnun umhverfis við og í þéttbýlinu.

Í tillögu skipulags- og mannvirkjanefndar er bent á að í „umhverfisstoð stefnu Fljótsdalshéraðs komi m.a. fram þær áherslur að sveitarfélagið vilji verða öðrum fyrirmynd með því að sýna ábyrgð gagnvart umhverfi og komandi kynslóðum. Þar komi einnig fram að styrkja beri þá sérstöðu sveitarfélagsins sem felst í grænni ímynd. Þá er þar lögð áhersla á samstarf við íbúa og fyrirtæki og ábyrgð þeirra í að skapa sveitarfélaginu snyrtilega og fagra ásýnd."

Þá er í tillögunni vakin athygli á því að „undanfarin ár hafi verið mikil og hröð uppbygging í þéttbýli Fljótsdalshéraðs. Ný hverfi og svæði hafi verið tekin í notkun með þeim áhrifum sem slíkum breytingum fylgi. Minni tími hafi gefist til að fylgja uppbyggingunni eftir með hönnun og frágangi á ýmsum svæðum. Nú sé hins vegar tímabært að huga enn frekar að umhverfisþáttunum, þar á meðal frágangi og ásýnd þéttbýlisins. Þegar unnið er með umhverfis- og skipulagsmál er mikilvægt að horfa á þætti eins og umgengni, ásýnd, hönnun og áhrif þessara þátta á búsetuval og uppbyggingu atvinnugreina, ekki síst ferðaþjónustu."

Eftirfarandi tillaga var lögð fram og samþykkt fyrst í skipulags- og mannvirkjanefnd og síðar samhljóða í bæjarstjórn: „Að tillögu skipulags- og mannvirkjanefndar samþykkir bæjarstjórn að mótuð verði áætlun um ásýnd, skipulag og hönnun umverfis við og í þéttbýli sveitarfélagsins. Horft verði sérstaklega til aðkomu að þéttbýlinu, svæða með vegum, svæða til sérstakra nota s.s. snjóhirðusvæða. Einnig verði horft til opinna svæða s.s. útivistarsvæða, svæða fyrir útilistaverk, almenningsgarða o.s.frv. Sérstök áhersla verði á að efla grænt og gróskumikið yfirbragð og þar með skipulag trjágróðurs á opnum svæðum. Við gerð áætlunarinnar verði m.a. tekið mið af áhrifum umhverfis og hönnunar þess á vellíðan og upplifun íbúa og gesta, fagurfræðilegum sjónarmiðum, búsetuáhrifum umhverfis, atriðum sem styrkja jákvæða sérstöðu og haft geta áhrif á veru ferðafólks á svæðinu svo og kostnaðarþáttum.

Unnar verði leiðbeiningar sem notaðar verða við gerð og eða frágang göngustíga, opinna svæða, leiksvæða, stofnanalóða, merkinga á vegum sveitarfélagsins, byggingargrunna, vegna snjóhreinsunar og aðgengismála. Þá verði unnar samþykktir eða reglur, þar sem það á við, til að skýra og tryggja framkvæmd þessara mála.

Lagt er til að strax eftir sveitarstjórnarkosningar verði skipaður starfshópur um gerð áætlunar um ásýnd, skipulag og hönnun umhverfis við og í þéttbýlinu. Starfshópinn skipi tveir fulltrúar úr skipulags- og mannvirkjanefnd, tveir úr umhverfis- og héraðsnefnd og einn úr atvinnumálanefnd. Með starfshópnum vinni deildastjórar á skipulags- og umhverfissviði. Lögð verði áhersla á aðkomu íbúa að gerð áætlunarinnar með beinni aðkomu að vinnu starfshópsins og með kynningar- og umræðufundum. Fyrstu drög liggi fyrir í október 2010, en áætlunin liggi fyrir í síðasta lagi í lok mars 2011 þannig að unnt verði að byrja að vinna í samræmi við hana á því ári."