76 verk valin til sýningar á 700IS af 642

Kvikmynda- og vídeólistahátíðin Hreindýraland 700IS verður haldin í fimmta sinn dagana 20. - 27. mars. Að þessu sinni var metþátttaka, en innsend verk voru 642 frá 49 löndum. Af þeim voru 76 verk valin til sýningar. Þar að auki frumsýnir Steina Vasulka nýtt vídeóverk fyrir sex skjái í Frystiklefanum í Sláturhúsinu á Egilsstöðum. Víðsvegar um Sláturhúsið verða svo hin 76 verkin sýnd hátíðarvikuna, en einnig verða listamenn og forstöðumenn samstarfshátíða með listamannaspjall við þrjú tækifæri, auk þess sem boðið verður upp á kínverskt tilraunabíó.

Starfsfólk hátíðarinnar hefur undanfarið haft í mörgu að snúast við að klára dagskrána og hefur hún nú verið sett á heimasíðuna www.700.is. Listamennina sem eiga verk sem voru valin á hátíðina í ár, er einnig að finna á vefsíðunni www.700.is, undir Listamenn 2010.
 
Árið 2009 hlaut Hreindýraland 700IS styrk frá Evrópusambandinu vegna  samstarfsverkefnisins Alternative Routes. Samstarfsaðilarnir, auk 700IS, eru moves í Bretlandi, INTERMODEM í Ungverjalandi og FRAME Research í Portúgal. Þessar fjórar vídeóhátíðir velja sitt verðlaunaverkið hvert (úr innsendum evrópskum verkum) sem verða síðan sýnd á hátíðunum í öllum löndunum frá maí 2010 til apríl 2011 og höfundar þeirra fá sérstök verðlaun og vegsauka.
 
Einnig er 700IS nú í samstarfi við norrænan listaþríæring sem haldinn verður í fyrsta sinn nú í vor í Eskilstuna í Svíþjóð. En úrval verka frá 700IS verða sýnd á hátíðinni þar í vor.
 
Enn ein nýbreytni sem verður á 700IS í mars er sérstök gestavinnustofa. Gestalistamenn í Skaftfelli á Seyðisfirði, í Sláturhúsinu á Egilsstöðum og Charles Ross sem búsettur er á Eiðum og Matti Sarinen, frá Finnlandi en búsettur á Akureyri, fá sérstaka kynningu á hátíðinni.
 
Fyrir utan ofantalið verður efnt til sérstakrar „stillusýningar“ víða um landið. Það þýðir að kyrrmyndir úr völdu vídeóverkunum verða sýndar á skjám hér og þar um landið í aðdraganda hátíðarinnar á Egilsstöðum.
 
Að hátíðinni lokinni fer úrval mynda (sérvalin syrpa og stundum öll valin verk) af hátíðinni á flakk og verða sýnd á videóhátíðum á þessu ári í Liverpool í Bretlandi í apríl, Debrecen í Ungverjalandi í maí, Eskilstuna í Svíþjóð í maí, Berlín í júní, Arizona í Bandaríkjunum í haust, Færeyjum í október og Portó í Portúgal í nóvember.
Ásamt því að vera í Evrópusamstarfi með hátíðunum í Liverpool, Debrecen og Portó, Alternative Routes, eru Hreindýraland 700IS í norrænu samstarfi með Formverk í Svíþjóð þar sem „Nordic Art Triennale“ (Norrænn listaþríæringur) verður haldinn í fyrsta sinn í vor, eins og komið hefur fram.
 
Hreindýralandshátíðin stendur yfir 20. – 27. mars og verður að þessu sinni sérstök rútuferð frá Reykjavík til Egilsstaða og tilbaka aftur (væntanlega keyrt hringinn).
 
Starfsfólk Hreindýraland 700IS eru þau Kristín Scheving, framkvæmdastjóri, Íris Lind Sævarsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri, Þórunn Hjartardóttir, meðstjórnandi, Maximillian Riley hönnuður, Þórhildur Laufey Sigurðardóttir, grafískur hönnuður og Ólöf Björk Bragadóttir, meðsýningarstjóri lokahófs 27. mars. Þar að auki koma fjölmargir aðrir að skipulagningunni eins og Ingunn Þráinsdóttir hjá Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs og Halldór Warén hjá Sláturhúsinu - menningarsetri.
 
Valnefndina skipa þau Sigrún Sigurðardóttir,  Hrafnkell Sigurðsson, Þórunn Eymundardóttir, Þórunn Hjartardóttir, Íris Lind Sævarsdóttir og Kristín Scheving.