700IS tilnefnt til Eyrarrósarinnar

Tilkynnt hefur verið að verkefnið 700IS Hreindýraland hafi verið tilnefnt til Eyrarrósarinnar í ár. Eyrarrósin er samstarfsverkefni Listahátíðar í Reykjavík, Byggðastofnunar og Flugfélags Íslands og er markmið hennar að stuðla að fagmennsku og færni við skipulagningu menningarlífs og listviðburða á landsbyggðinni, auka kynningarmöguleika einstakra sveitarfélaga og landshluta og skapa sóknarfæri á sviði menningartengdrar ferðaþjónustu. En greint verður frá því á Bessastöðum 13. febrúar, hvert þeirra þriggja verkefna sem hlotið hafa tilnefningu á þessu sinni, hljóti Eyrarrósina.
 
Þessa dagana vinnur starfsfólk 700IS Hreindýraland að því hörðum höndum að undirbúa dagskrána sem fram fer á Egilsstöðum í mars. Nú er hins vegar orðið ljóst hvaða listamenn sýna í ár og eins og alltaf er sérstakt þema ráðandi og að þessu sinni er þemað „gagnvirk" list (interactive art), þar sem áhorfandinn er þátttakandi í listinni.

Fimm gagnvirk verk verða sett upp í Sláturhúsinu á Egilsstöðum, á efri hæðinni, þar af tvö verk eftir nemendur Listaháskóla Íslands. Verkin hafa verið verðlaunuð hjá Listaháskólanum og Háskólanum í Reykjavík en þessi skólar eru með samstarfsverkefni sín á milli þar sem vísindamenn og listamenn vinna saman.

Þá verður boðið upp á fyrirlesturinn „hvað er gagnvirk list", sem Sigrún Harðardóttir frá Listaháskólanum í Reykjavík mun flytja.

Það verður sérstaklega mikið haft við í ár þar sem að Alternative Routes verkefninu er að ljúka. Nú í ár koma allir listamennirnir sem hlutu verðlaun á þeim fjórum hátíðum sem haldnar hafa verið undir merkjum Alternative Routes, sem er í Evrópusamstarfsverkefni (um Alternative Routes verkefnið er hægt að lesa á www.700.is og hér http://www.movementonscreen.org.uk/alternativeroutes/ ). Hér er um að ræða Sergio Cruz frá Portúgal, Rimas Sakalauskas frá Litháen, Petko Dourmana frá Búlgaríu og Söru Björnsdóttur frá Íslandi. Aðrir aðilar sem taka þátt í 700IS í mars eru Sigrún Harðardóttir, FORMWERK (Svíþjóð) http://www.formverk.se/ , BUREAU (Ísland - Nýja-Sjáland)
http://glamour.is/projects/The-Last-Man/ , Listaháskólinn í Reykjavík og fleiri.

Þá verða um 30 verk sýnd fyrir utan þetta (gestasýningarstjórar frá Formverk, moves og LHÍ), einnig verður boðið upp á listamannaspjall, námskeið og fleira.

Dagskránin verður sett á vefsíðuna www.700.is um miðjan febrúar.


Meðfylgjandi mynd er af gagnvirku verki Sigrúnar Harðardóttur sem sett verður upp í Sláturhúsinu. Hörður Ellert Ólafsson tók myndina.