2. í Ormsteiti: Púttmót, hátíð í Hlymsdölum, ungmennahátíð og Fellabæjarsúpa

Í dag fimmtudagurinn 11. ágúst hefst Ormsteitið með púttmóti eldriborgara í Skjólgarðinum, á bak við pósthúsið. Eldriborgarar bjóða síðan upp á skemmtun og kaffi klukkan 16:00 að Hlymsdölum þar sem dagskráin verður helguð Kristjáni frá Djúpalæk.

Síðar um daginn, eða klukkan 18:00, hefst ungmennahátíð við Sláturhúsið þar sem ungir listamenn koma fram. Skemmtileg leiktæki frá Hopp.is verða á staðnum en kvöldið endar svo með balli með Dj Dodda Mix og stendur það til klukkan 23:00. Ungmennahátíðin er fyrir 12 ára og eldri.

Um kvöldið bjóða Fellbæingar öllum heim upp á heimalagaða súpu frá klukkan 19:00 til 21:00. Upplýsingar um hvar verður hægt að kíkja í heimsókn hjá Fellbæingum verður hægt að finna á www.facebook.com/ormsteiti . Gréta Dúkkulísa á Bókakaffi tekur síðan vel á móti gestum að lokinni súpuveislunni.

Íbúar sveitarfélagsins eru hvattir til að skreyta garða og götur fyrir klukkan 20:00 þennan dag þar sem dómnefnd fer á ról til að meta bestu skreytingarnar. Verðlaun verða síðan veitt á hverfaleikunum fyrir best skreytta húsið, best skreyttu götuna og best skreytta hverfið.

Og það verður að sjálfsögðu opið í Markaðstjaldinu frá klukkan 13:00 til 17:00.