17 útskrifast með grunnmenntun í PMT

Fyrsti hópurinn úr grunnmenntun PMT útskrifaðist þriðjudaginn 16. febrúar á Egilsstöðum. Þar með hafa 17 fagaðilar lokið grunnmenntun PMT. Útskriftarnemendur koma úr leik- og grunnskólum Fljótsdalshéraðs, frá Svæðisskrifstofu málefnum fatlaðra, frá Skólaskrifstofu Austurlands og Félagsþjónustu Fljótsdalshéraðs.

Markmiðið með grunnmenntun í aðferðum PMT (Parent Management Training) er að kynna þátttakendum hugmyndafræði og framkvæmd PMT- Foreldrafærni en einnig að efla fagstéttir í ráðgjöf vegna hegðunar barna. Nokkrir fagaðilar sem lokið hafa grunnmenntun í PMT koma úr skólum Fljótsdalshéraðs sem hafa ákveðið að innleiða SMT-Skólafærni.

PMT er aðferð fyrir foreldra – einkum foreldra barna með hegðunarerfiðleika. PMT hentar foreldrum barna á leik- og grunnskólaaldri og byggir á áratuga rannsóknum, sem sýna góðan árangur. Þar sem foreldrar eru mikilvægustu kennarar barna sinna er áhersla lögð á ítarlega vinnu með þeim og gert ráð fyrir sveigjanleika til að mæta þörfum hverrar fjölskyldu. Foreldrar fá aðstoð við að rjúfa þann vítahring sem kann að hafa myndast hjá barninu, með því að tileinka sér nýjar leiðir í uppeldi. Unnið er með ákveðna grunnþætti til að stuðla að jákvæðri hegðun barnsins og draga úr hegðunarvanda. Í raun er um að ræða ákveðin verkfæri sem eru „fyrirmæli“ og jákvæð samskipti við barnið, notkun „hvatningar“ við kennslu nýrrar hegðunar, „að setja mörk“ til að draga úr og stöðva óæskilega hegðun, „lausn vanda“ og uppbyggilegar aðferðir í samskiptum innan fjölskyldu, „eftirlit“ með hegðun barns innan og utan heimilis, „tengsl við skólakerfið“ og „stjórn neikvæðra tilfinninga.“

SMT-skólafærni er innleitt í skólasamfélagið til að fyrirbyggja, draga úr og stöðva hegðunarfrávik og þar með skapa jákvætt andrúmsloft. Um er að ræða hliðstæða aðferð og PMT, sem grundvölluð er á sömu hugmyndafræði. Ólíkum hópum nemenda er mætt með samræmdum viðbrögðum alls starfsfólks þar sem áhersla er á að gefa jákvæðri hegðun gaum og almennt nálgast nemendur með jákvæðum hætti.

Starfsfólk hjá félagsþjónustu Fljótsdalshéraðs, sem hlotið hefur sérþekkingu í aðferðum PMT, annaðist fræðsluna ásamt sérfræðingum frá Skólaskrifstofu
Hafnarfjarðar.

Útskriftin fór fram í húsnæði Þekkingarnets Austurlands að Vonarlandi og sýnir myndin nemendur og kennara sem þátt tóku í námskeiðinu.