- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
Eins og undanfarin ár skarta nokkrir gluggar og veggir á fjölförnum stöðum á Egilsstöðum og í Fellabæ ljóðum og kvæðum heimafólks. Þetta er í sjötta sinn sem þetta er gert undir formerkjunum Ljóð á vegg.
Fyrst voru sett upp kvæði eftir Pál Ólafsson og síðan Hákon Aðalsteinsson. Næst voru það ljóð eftir börn leikskólanna á Fljótsdalshéraði og fyrir fjórum árum var leitað til fjórtán einstaklinga á Héraði og þeim boðið að taka þátt í verkefninu, en þemað var árstíðirnar. Árið 2015 var svo auglýst eftir ljóðum frá konum, búsettum eða frá Fljótsdalshéraði, í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna á Íslandi.
Í ár er þess minnst að 70 ár eru liðin frá því að Egilsstaðahreppur var stofnaður með lögum árið 1947 og segja má að þéttbýlismyndun hafi hafist við Lagarfljótið. Er það einsdæmi á meðal sveitarfélaga á Íslandi að stjórnvöld hafi forgöngu um stofnun nýs sveitarfélags og að byggðinni sé valinn staður af skipulagsnefnd ríkisins með þeim ásetningi að þar rísi þéttbýli.
Í tilefni þessa ákvað stjórn verkefnisins Ljóð á vegg að velja ljóð og kvæði eftir einstaklinga sem allir eiga það sameiginlegt að hafa búið á Fljótsdalshéraði í lengri eða skemmri tíma. Öll skáldin nema tvö eru fædd fyrir 1947. Skáldin sem nú eiga ljóð eða kvæði eftir sig upphangandi eru Arnar Sigbjörnsson, Hildigunnur Valdimarsdóttir, Katrín Málfríður Eiríksdóttir, Jón Sigfússon, Sigurður Óskar Pálsson, Margrét Sigfúsdóttir, Bragi Björnsson, Sævar Sigbjarnarson, Sólrún Eiríksdóttir, Hreinn Halldórsson, Ásta Jónsdóttir, Sigfús Guttormsson, Ágústa Ósk Jónsdóttir.
Á bæklingi sem gefinn var út í tilefni verkefnisins má sjá hvar ljóðin eru á veggjum eða í gluggum en einnig má finna upplýsingar um það hér.
Það var Teiknistofan AKS sem sá um uppsetningu ljóðanna.