120 manns bókaðir í Urriðavatssund

Frá Urriðavatnssundi í fyrra. Fyrstu keppendur komnir á land.
Frá Urriðavatnssundi í fyrra. Fyrstu keppendur komnir á land.

Urriðavatnssundið fer fram á morgun laugardaginn í 7.sinn. Þrjár vegalengdir eru í boði að venju, 400 metra sund, 1,25 km og 2,5 km en langflestir eru í lengsta sundinu. 

Urriðavatnssundið er að skapa sér nafn. Örfáir tóku þátt í fyrsta skiptið. Í fyrra luku 54 keppendur sundinu og í ár var ákveðið að selja 100 pláss sem ruku út á örskotsstundu þannig fjöldinn var aukinn upp í 120. Keppendur koma víða að, m.a. hefur fréttst af keppanda sem kemur alla leið frá Skotlandi.

Sundið er framlag Austurlands til Landvættarþrautarinnar sem ein ofurþraut er í hverjum fjórðungi og er líka hluti af austfirsku þríþrautinni Álkarlinum en í henni eru einnig hjólreiðakeppnin Tour de Ormurinn og Barðsneshlaupið.

Sundið verður ræst í tveimur hollum, hið fyrra klukkan 8:45 á laugardagsmorgun og hið seinna er áætlað klukkustund síðar. Veðurspáin er góð, hálfskýjað og nánast logn.

Fólk, keppendur, áhorfendur og sjálfboðaliðar eru beðnir um að sameinast í bíla að Urriðavatni því bílastæði eru þar fá. Einnig eru ökumenn beðnir um að aka varlega í grennd við keppnissvæðið þar sem búast má við mikilli fólksumferð.