10 ára börn ekki ein í sund fyrr en 1. júní

Vakin er athygli á því að í haust var breytt ákvæðum um um aldurstakmörk á sundstöðum í reglugerð um öryggi og hollustuhætti á sund- og baðstöðum. Eftir breytingarnar er lágmarksaldur þeirra sem fara einir í sund 10 ár eftir sem áður, en í stað þess að miða takmarkið við afmælisdag viðkomandi sundgests, þá fá allir sem verða tíu ára á almanaksárinu að fara einir sund eftir 1. júní.

Í nýlegri handbók fyrir sundstaði segir: „Börnum sem ekki hafa náð 10 ára aldri er óheimill aðgangur að sund- og baðstöðum nema í fylgd með syndum einstaklingi 15 ára eða eldri. Aldursmörk gilda til 1. júní það ár sem barnið verður 10 ára“.  

Þá mega sundgestir eldri en 15 ára ekki hafa með sér fleiri en tvö börn undir aldri, nema foreldrar og forráðmenn barnanna.

Umboðsmaður barna mælist til þess að foreldrar og þeir sem starfa með börnum kynni sér þessar breyttu reglur. Nánar má lesa um þær á vef Umboðsmanns barna.