0% englar sigruðu í Lego-hönnunarkeppni

Liðið 0% englar frá Brúarásskóla á Fljótsdalshéraði sigraði í FIRST LEGO League (FLL), tækni- og hönnunarkeppni grunnskólanemenda á laugardaginn. Liðið vann sér þar með þátttökurétt á Evrópumóti FIRST LEGO League sem fram fer í lok maí á Spáni. Hér má sjá frétt á ruv.is frá keppninni.

Í frétt frá Háskóla Ísland segir m.a.: Þrettán lið voru skráð í keppnina eða um 140 grunnskólanemar á aldrinum 10-15 ára. Keppnin hófst á laugardagsmorgun á því að liðin spreyttu sig á þraut tengdri þema keppninnar, sem í ár var náttúruöfl. Áttu þau að forrita vélmenni úr tölvustýrðu LEGO-i til að leysa þrautina. Enn fremur gerðu keppendur vísindalega rannsókn á ákveðnu efni sem einnig var tengt þemanu og jafnframt héldu liðin ítarlega dagbók um undirbúning fyrir keppnina. Þá fluttu liðin skemmtiatriði á sviðinu í stóra sal Háskólabíós og að lokum þurftu þau að gera grein fyrir því hvernig þau forrituðu vélmenni sitt.

Þegar upp var staðið reyndist liðið 0% englar sigurvegari, en það er skipað sjö stúlkum úr Brúarásskóla á Fljótsdalshéraði. Þær fengu einnig verðlaun fyrir bestu lausn í vélmennakappaleik. Í viðurkenningarskyni fyrir sigurinn hlaut liðið forláta LEGO-bikar ásamt verðlaunum frá Símanum og Krumma. Þá vann sigurliðið sér jafnframt keppnisrétt á Evrópumóti First Lego League sem haldið verður á Spáni í lok maí.

Auk sigurverðlauna voru veitt verðlaun í ýmsum flokkum, sem hér segir:
Besta skemmtiatriðið: El Grilló frá Seyðisfjarðarskóla
Besta liðsheildin: Krapaflóð frá Grunnskóla Fáskrúðsfjarðar
Besta dagbókin: Hnjúkarnir frá Grunnskóla Hornafjarðar
Besta lausn í vélmennakappleik: 0% englar frá Brúarásskóla
Besta hönnun og forritun vélmennis: Bakkabræður frá Breiðholtsskóla
Besta rannsóknaverkefnið: Molten frá Naustaskóla á Akureyri

Þá hlaut liðið Molten enn fremur gjafabréf í Háskóla unga fólksins í Háskóla Íslands næsta sumar, en verðlaunin voru dregin úr potti með öllum liðum. Allir þátttakendur í keppninni fengu enn fremur FLL-medalíu í viðurkenningarskyni.

Þetta var í áttunda sinn sem FIRST LEGO League tækni- og hönnunarkeppnin var haldin. Markmiðið hennar er að blása ungu fólki í brjóst löngun til að skara fram úr á sviði tækni og vísinda. Verkfræði- og náttúruvísindasvið og Menntavísindasvið Háskóla Íslands halda utan um keppnina en helstu bakhjarlar hennar eru Nýherji, Síminn, Krumma, Össur, Verkfræðingafélag Íslands, Tæknifræðingafélag Íslands, VSÓ ráðgjöf, ÍTR, Kjörís, Vífilfell, MS, Melaskóli og Mannvit.