17.10.2008
kl. 17:17
Fréttir
Í dag, föstudag, undirritaði Fljótsdalshérað viljayfirlýsingu við Greenstone ehf varðandi byggingu á allt að 50.000 fermetra gagnaveri í sveitarfélaginu. Það voru þeir Eiríkur B. Björgvinsson, bæjarstjóri og Sveinn Óskar Sigurðsson hjá Greenstone, sem undirrituðu yfirlýsinguna.
Í viljayfirlýsingunni kemur fram að Fljótsdalshérað mun leggja til lóð undir gagnaver og Greenstone ehf mun sjá um kynningu á möguleikum sveitarfélagsins í þessu efni, hönnun og næntanlega byggingu gagnavers. Þá segir í yfirlýsingunni:
Þegar hefur Greenstone ehf ritað undir viljayfirlýsingu við Landsvirkjun þess efnis að orkufyrirtækið útvegi Greenstone a.m.k. 50 MW af orku.
Um þessar mundir er hafin lagning nýs ljósleiðara til Evrópu frá Íslandi sem og aðrar gagnatengingar eru í augsýn er tengja landið bæði við Evrópu og N-Ameríku. Lögð er áhersla á að lagning nýs ljósleiðara til Bandaríkjanna beint frá Íslandi er talin nauðsynleg í þessu efni. Slíkt mun auka á möguleika á að alþjóðleg fyrirtæki sjái sér fært að staðsetja gagnaver sín á Íslandi og nýta þannig vistvæna orku landsins til að kæla og keyra mengunarlausan tæknibúnað gagnavera.
Vænta má að allt að 20 bein störf geti skapast í sveitarfélaginu og allt að 20 afleidd störf bæði í sveitarfélaginu og nágrannasveitarfélögum Fljótsdalshéraðs.