Á dagskrá fundar skipulags- og byggingarnefndar sem haldinn var í gær, 11. júlí, var nýtt deiliskipulag ISAVÍA við Egilsstaðaflugvöll. Umfjöllun var þó frestað þar sem ekki hafa enn borist umsagnir frá þeim opinberu aðilum sem málið varðar. Meðal gagna í málinu var undirskriftalisti á þriðja hundrað íbúa, sem Broddi Bjarnason talsmaður hópsins afhenti bæjarstjóra nýlega. Þar er skorað á ISAVÍA og skipulagsyfirvöld að gera ráð fyrir gönguleið umhverfis flugvöllinn í deiliskipulaginu. Þá þyrfti reyndar líka að koma til breyting á aðalskipulagi sveitarfélagsins. Sömu leiðis þarf að skoða allar öryggiskröfur og fá heimild landeiganda.
Að því frágengnu væri síðar mögulegt að gera þarna greiðfæra gönguleið og jafnvel að leggja sérstakan göngustíg umhverfis afgirta svæðið. Á vorin og fram eftir sumri er fjölbreytt fuglalíf á þessu svæði, ekki síst í hólmunum meðfram Lagarfljótinu. Með gönguleiðinni opnast möguleiki fyrir útivistarfólk til að fylgjast með margbreytilegu flugi á og við Egilsstaðaflugvöll.