Á fimmtudag var nýr vegkafli opnaður á þjóðvegi 1 úr Jökuldal og uppá Jökuldalsheiði. Vegurinn liggur um Skjöldólfsstaðahnjúk og er nýr vegarkafli 8,2 kílómetrar að lengd. Um talsverða vegabót er að ræða fyrir vegfarendur.
Nýja leiðin leysir af hólmi eldri vegkafla þar sem liggja hættulegar beygjur í talsverðum bratta. Óhætt er að segja að hin nýja leið sé öruggari og greiðfarnari en sú gamla.
Verktaki er Héraðsverk, en framkvæmdum er ekki að fullu lokið þótt umferð hafi verið hleypt á vegkaflann. Vegfarendur er beðnir um að sýna aðgát meðan vinna stendur enn yfir. Bráðabirgðavegtenging er af Efri-Jökuldal yfir á nýja veginn skammt frá Skjöldólfsstöðum. Hluti af verkinu er stálplöturæsi í Gilsá sem mun leysa einbreiða brú af hólmi.