Í sumar var komið upp vefmyndavél og veðurstöð í Kverkfjöllum, sjá má í vesturátt yfir Hverasvæðið í Hveradal og til norðurs til Dyngjujökuls, Öskju og Herðubreiðar. Ferðafólk getur því gáð til veðurs í Krepputungunni áður en haldið er af stað inn á svæðið. Landverðir eru að störfum bæði í Kverkfjöllum, þar sem boðið er upp á styttri og lengri göngur á jökul, og í Hvannalindum þar sem boðið er upp á daglegar göngur inn að rústum Eyvindar og Höllu kl. 13 eða eftir samkomulagi. Einungis er um 3 -4 klukkustunda akstur í Kverkfjöll frá Egilsstöðum og er leiðin fær öllum jeppum smáum sem stórum. Tjaldsvæði og stór skáli, Sigurðarskáli, er í Kverkfjöllum og nokkrar merktar styttri gönguleiðir eru á svæðinu. Krepputungan er kyngimagnað svæði sem allir austfirðingar ættu að skoða betur á http://jardvis.hi.is/ny_vefmyndavel_og_vedurstod_i_kverkfjollum
Viðburðir á næstunni í þjóðgarðinum
29. júlí
Hvannalindir Liggur í kreppu lítil rúst
Þann 29. Júlí n.k. mun landvörður í Hvannalindum bjóða öllum sem vilja að ganga með sér að Kreppu. Farið verður frá bílaplaninu í Hvannalindum kl. 13:00. Gangan tekur um 5-6 klst. og er flestum fær, gengið verður eftir Kreppuhrygg þar sem víðsýnt er til allra átta og farið til baka meðfram hraunjaðrinum við bakka Lindár og endar gangan við rústir útilegumanna í Lindahrauni. Hægt er að skrá sig í gönguna í Snæfellsstofu.
Snæfellsöræfi - Árleg útimessa Valþjófsstaðaprestakalls
Sunnudaginn 29. Júlí verður haldin messa inn við Jökul Eyjabakka/Brúarjökul kl. 14 (ekið eftir vegi F909 af vegi 910, Kárahnjúkavegi - leiðin er fær fjórhjóladrifsbílum). Boðið verður upp á rútuferð frá Snæfellsstofu við Skriðuklaustur og leggur rútan af stað þaðan kl. 12. Í rútunni verður leiðsögumaður sem segir frá því sem fyrir augu ber og staðháttum á messustað.
31.júlí
Snæfell Á refilsstigum
Þann 31. Júlí n.k. á alþjóðadegi landvarða munu landverðir í Snæfelli bjóða upp á gönguferð um byggðir útilegumanna undir Snæfelli og reynt verður að setja sig í spor ógæfumanna á fyrri öldum, sem höfðu í fá hús að venda önnur en óblíð öræfi landsins. Gengið verður frá Snæfellsskála inn með Þjófadalsá á milli vesturhlíða Snæfells og Langahnjúks, inn í Þjófadali þar sem talið er að útilegumenn hafi hafist við. Loks verður gengið að mynni dalsins ofan Þóriseyja (Eyjabakka) og svo tilbaka í Snæfellsskála. Gangan hefst við Snæfellsskála kl. 10 og tekur um 7 klst. Hægt er að skrá sig í gönguna í Snæfellsstofu.
Auk þessa má minna á daglegar barnastundir í Snæfellsstofu kl. 14 og daglegar göngur með landverði frá Snæfellsskála kl. 9 á Vestari-Sauðahnjúk.
Nánari upplýsingar um viðburði eða ferðalög innan þjóðgarðsins má finna á heimasíðu þjóðgarðsins www.vjp.is og í Snæfellsstofu sem er opin alla daga í sumar frá 9-18 (10-18 um helgar) og í september frá 10-16 (13-17 um helgar).