09.04.2008
kl. 10:17
Fréttir
Fljótsdalshérað hefur auglýst eftir leigu- og rekstraraðila að félagsheimilishluta og eldhúsi Valaskjálfar á Egilsstöðum. En sveitarfélagið gerði fyrir stuttu leigusamning við eiganda Valaskjálfar um þennan hluta hússins og hyggst nú áframleigja það.
Gert er ráð fyrir að hið leigða rými verði nýtt fyrir veitinga,- skemmti- og menningarstarfsemi. Húsnæði það sem auglýst er til leigu er stór salur með sviði, hliðarsalur með bar, lítill salur og bar á efri hæð og anddyri með bar. Einnig eldhús og öll helstu eldhústæki. Þá er um að ræða aðstöðu í kjallara tengda eldhúsi og geymslurými undir sviði. Hið leigða rými er alls um 1.360m2 að stærð. Í öðrum hluta hússins er rekið hótel yfir sumartímann af öðrum aðila. Gert er ráð fyrir að félagsheimilishluti Valaskjálfar verði leigður frá og með 1. maí 2008.
Fram kemur í auglýsingu um leigu á húsnæðinu að umsókn skuli m.a. innihalda tilboð í verð á hinu leigða rými, hugmyndir um starfsemi sem rekin verður í húsnæðinu og upplýsingar um umsækjanda. Umsóknarfrestur er til og með 23. apríl 2008. Umsóknarblað auk frekari skilmála og upplýsinga um hið leigða er afhent á skrifstofu Fljótsdalshéraðs.