29.08.2007
kl. 15:12
Fréttir
Uppskeruhátíð yngri flokka knattspyrnudeildar Hattar verður haldin á morgun, fimmtudaginn 30. ágúst kl. 18, í fjölnýtihúsinu í Fellabæ. Uppskeruhátíð yngri flokkanna er árlegur viðburður í lok sumars þegar formlegum æfingum er lokið.
Á uppskeruhátíðinni koma iðkendur ásamt foreldrum og forráðamönnum saman til að gera upp knattspyrnuárið sem hefst í september og lýkur í lok ágúst árið eftir. Iðkendur í sumar voru um 230 frá 7. flokki upp í 3. flokk og þá er um að ræða bæði stráka og stelpur. Það ánægjulega er að stúlkum sem æfa reglulega knattspyrnu hefur fjölgað verulega á liðnu knattspyrnuári og væntanlega hefur gott gengi meistaraflokks kvenna ýtt þar verulega undir.
Á dagskrá uppskeruhátíðar verða m.a., verðlaunaafhending, myndataka af flokkunum og eitthvað gott að borða í lokin. Æskilegt er að krakkarnir komi í Hattargöllunum (peysunum) sínum vegna myndatökunnar.