UÍA býður Austfirðingum á Landsmót 50+

Stjórn Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands hefur ákveðið að fella niður skráningargjöld fyrir þátttakendur af sambandssvæðinu á Landsmót UMFÍ 50 ára og eldri sem haldið verður í Neskaupstað 28. – 30. júní næstkomandi. Undirbúningi mótsins miðar vel.

„Við viljum hvetja Austfirðinga til að nýta sér þetta frábær tækifæri til hreyfingar,“ segir Gunnar Gunnarsson, framkvæmdastjóri UÍA.

Ákvörðunin er meðal annars tekin í ljósi þess að skráning á mótið frá Austurlandi hefur verið dræm en þetta er í fyrsta skipti sem Landsmót 50+ er haldið á Austurlandi. Í gær voru aðeins ellefu þátttakendur skráðir undir merkjum UÍA. Þeim verður endurgreitt þátttökugjaldið.

„Það eru auðvitað vonbrigði hve treglega skráningin hér eystra hefur gengið. Við getum ekki látið það spyrjast út um okkur að við mætum ekki á mótið þegar það er haldið í okkar eigin bakgarði.

Við höfum heyrt í samtölum okkar við fólk eystra að það er hikandi því það þekki ekki mótin. Skráning víða annars staðar hefur gengið ágætlega, einkum frá þeim stöðum sem hafa haldið mótin áður.

Við viljum því nota þetta tækifæri til að Austfirðingar kynnist mótunum. Við erum í þessari stöðu meðal annars því við höfum öfluga bakhjarla sem koma myndarlega að mótinu,“ segir Gunnar.

Þótt mótið sé ætlað fólki sem er komið yfir fimmtugt er þar einnig að finna greinar sem opnar eru fyrir alla aldurshópa svo sem pílukast, lomber, frisbígolf, strandblak og garðahlaup.

Undirbúningi mótsins miðar annars vel. Meðal annars hefur verið ráðist í gerð frjálsíþróttaaðstöðu, gryfju fyrir langstökk og kastsvæða fyrir mótið. Erfiðast er að stjórna veðrinu en nýjustu langtímaspár benda til þess að þar horfi til betri vegar í næstu viku en verið hefur það sem af er mánuðinum.

Í gær var einnig ákveðið að framlengja skráningarfrest á mótið út þriðjudaginn 25. júní. Skráning og allar nánari upplýsingar um mótið má finna á umfi.is. Þeir sem vilja aðstoð við skráningu geta haft samband við skrifstofu UÍA í síma 471-1353 eða UMFÍ í síma 568-2929.