- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
Menningarverðlaun Fljótsdalshéraðs voru veitt í fyrsta sinn þann 17. júní 2019. En reglur um þau voru samþykktar af atvinnu- og menningarnefnd og bæjarstjórn sveitarfélagsins síðastliðinn vetur. Verðlaunum þessum er hægt að veita einstaklingi, stofnun eða samtökum sem viðurkenning fyrir eftirtektarvert framtak á sviði lista og menningar á nýliðnu ári. Hlutverk verðlaunanna er einnig að vera almenn hvatning til eflingar á menningar- og listastarfi í sveitarfélaginu. Verðlaunin eru í formi fjárhæðar og heiðursskjals. Í vor var auglýst eftir ábendingum til menningarverðlaunanna og á fundi sínum 11. júní komst atvinnu- og menningarnefnd einróma að þeirri niðurstöðu að Torvald Gjerde skuli hljóta Menningarverðlaun Fljótsdalshéraðs 2019.
Í ræðu sem Gunnhildur Ingvarsdóttir, formaður atvinnu- og menningarnefndar, flutti á þjóðhátíðardaginn í Tjarnargarðinum á Egilsstöðum, sagði hún:
„Torvald Gjerde fæddist árið 1951 í Halsnöy í Noregi. Hann er menntaður kennari með áherslu á tónlistarkennslu. Hann starfaði fyrst sem skólastjóri við tónlistarskólann í Etne í Sunnhordaland í Noregi. Árið 1993 fluttist hann til Stöðvarfjarðar þar sem hann varð skólastjóri tónlistarskólans og organisti. Hann var einnig organisti og kórstjóri í Heydalakirkju og stjórnaði samkór Suðurfjarða. Árið 2001 sest hann að á Fljótsdalshéraði þar sem hann hefur búið síðan, verið organisti, stjórnað kórum, kennt tónlist og komið að tónlistarmálum með ýmsum hætti. Það eru því orðin um 26 ár sem Torvald hefur starfað að menningarmálum á Austurlandi. Hann er gott dæmi um þá fjölmörgu íbúa svæðisins sem fæddir og uppaldir eru erlendis en lagt hafa mikið til samfélagsins með athafnasemi sinni.
Torvald starfar í dag sem organisti við Egilsstaðakirkju og Þingmúla- og Vallaneskirkjur. Hann stjórnar jafnframt kórum þessara kirkna. Auk þess að syngja við guðsþjónustur og aðrar kirkjulegar athafnir koma kórarnir reglulega fram á tónleikum undir stjórn Torvalds. Jólatónleikar Egilsstaðakirkju eru t.d. fastur liður í byrjun janúar ár hvert þar sem allir hans kórar koma fram ásamt einsöngvurum og hljóðfæraleikurum. Þá hefur Torvald komið að starfi Barnakórs Egilsstaðakirkju.
Torvald stjórnar einnig Kammerkór Egilsstaðakirkju. Torvald er stofnandi kórsins, sem nú er rúmlega níu ára. Með þeim kór hefur hann lagt áherslu á tónlist frá tíma endurreisnarinnar og barokksins. Kórinn hefur þó einnig flutt ýmsa aðra tónlist. Dagskrá kórsins er ætíð metnaðarfull og iðulega ekki ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur. Undanfarin ár hefur kórinn t.d. flutt verk eftir Mozart, Schubert, Handel, Buxtehude, Palestrina og Bach, svo sem Jólaóratóríuna. Kórinn heldur að jafnaði tvenna tónleika í Egilsstaðakirkju á ári, á aðventunni og á vorin, oft með kammersveit.
Á jólatónleikum síðasta árs flutti Kammerkórinn kantötu nr. 36 í heild, auk valdra kafla úr öðrum kantötum og verkum eftir Johann Sebastian Bach. Og á vortónleikum sínum flutti kórinn messu eftir 16. aldar tónskáldið Palestrina. Með uppsetningu þessara og fleiri verka hefur Torvald gefið íbúum Austurlands mikilvægt tækifæri til að taka þátt í flutningi og hlýða á og kynnast stórverkum tónbókmenntanna.
Torvald Gjerde er upphafsmaður og listrænn stjórnandi Tónlistarstunda á Héraði, en það er tónleikaröð sem haldin hefur verið á hverju sumri síðan árið 2002 í Egilsstaðakirkju og Vallaneskirkju. Tónlistarstundirnar eru ekki hvað síst merkilegar fyrir þær sakir að Torvald hefur frá upphafi lagt áherslu á að gefa tónlistarfólki frá eða með tengsl við Austurland tækifæri til að koma fram. Oft er hér um að ræða ungt fólk sem t.d. er í framhaldsnámi eða hefur starfað á Austurlandi. Jafnframt kemur reglulega fram starfandi tónlistarfólk á þessum tónleikum. Tónlistarstundir á Héraði eru mikilvægar fyrir unga austfirska tónlistarflytjendur og tónlistarlíf á Austurlandi.
Framtak, metnaður og elja Torvalds gerir það að verkum að hann er verðugur Menningarverðlauna Fljótsdalshérað. Mig langar að biðja Torvald Gjerde um að koma hingað upp og taka á móti viðurkenningu fyrir eftirtektarvert framtak á sviði lista og menningar.“