- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
Fjögur COVID-19 smit hafa nú greinst á Austurlandi. Enginn þeirra fjögurra sem greinst hafa eru mikið veikir. Smitrakningu er lokið vegna þessara smita. Tveir voru í sóttkví þegar smit var greint og samræmist því að 50-60% nýgreindra á landsvísu þessa dagana er úr hópi fólks í sóttkví. Hundrað og sextíu manns eru í sóttkví á Austurlandi.
Ljóst er að fyrir fyrirtæki og stofnanir getur það verið þungt högg að missa starfsmenn í einangrun og aðra í sóttkví í kjölfarið. Mikilvægt er því að viðbragðsáætlanir innan þeirra taki mið af þessum möguleika. Í þeim tilvikum sem hér um ræðir voru viðbragðsáætlanir til staðar og röskun á starfsemi því lítil.
Undirbúningur Almannavarnanefndar og aðgerðastjórnar hér á svæðinu hafa frá því í lok janúar miðað að því að takast á við smit vegna COVID-19. Ekkert hefur því komið á óvart enn sem komið er, viðbragðsáætlanir verið virkjaðar og þær gengið samkvæmt áætlun. Ekki er ástæða til að ætla annað en svo verði áfram.
Hvað varðar samkomubann þá hafa starfsmenn á vegum aðgerðastjórnar fylgst með hvernig til hefur tekist, meðal annars með heimsóknum í verslanir og á veitingastaði. Nokkrar athugasemdir verið gerðar en heilt yfir eru ráðstafanir til fyrirmyndar.
Unnið er að greiningu á því hvort útlendingar sem búa hér á svæðinu og dvelja eru að fá nægjanlegar upplýsingar um COVID-19. Sveitarfélögin eru með það verkefni hjá sér.
Aðgerðastjórn fyrir hönd Almannavarnanefndar mun senda tilkynningar daglega hér eftir íbúum til upplýsingar um stöðu mála, ábendingar, tilkynningar og fleira. Þær munu birtar á lögregluvefnum logregla.is, á fésbókarsíðu lögreglu og á heimasíðum sveitarfélagana.