- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
Fimmta árið í röð stefnir Ungmennafélagið Þristur á að fara með hóp krakka, 12 ára og eldri, á hjólreiðaviðburðinn Síminn Cyclothon, en hann hét áður WOW Cyclothon.
Keppnin fer að þessu sinni fram 23.-26. júní og í ár verður safnað fyrir Landvernd, en á hverju ári er valið verðugt málefni sem styrkt er. Keppendur og keppnislið leggja sitt af mörkum í söfnun áheita sem renna óskipt til málefnisins.
Hjólaæfingar Þristarins hefjast í mars og er mikilvægt að allir hjólarar sem hafa áhuga á að fara með í hringferðina verði með frá upphafi.
Það geta allir tekið þátt og það eina sem þarf er áhugi og vilji þar sem að hringferð snýst um svo margt annað en bara hjólreiðar. Fyrst og fremst er þetta verkefni sem krökkunum er falið að leysa og það gera þau með ótrúlegri samvinnu og þrautseigju.
Síminn Cyclothon er götuhjólakeppni og krefst búnaðar í samræmi við það og því ekki víst að þau sem áhuga hafa eigi slíkan búnað en að sögn háttsettra hjá Þristinum er það engin fyrirstaða og ef krakka langar að taka þátt þá verður búnaðarmálum reddað.