Stjörnum prýtt spurningalið Fljótsdalshéraðs
02.09.2008
kl. 13:53
Fréttir
Skipað hefur verið í lið Fljótsdalshéraðs fyrir spurningaþættina Útsvar sem verða á dagskrá Sjónvarpsins í vetur eins og í fyrra. Liðið skipa þau Þorsteinn Bergsson, Stefán Bogi Sveinsson og Margrét Urður Snædal. Það eru því ekki miklar sviptingar á skipan liðsins, en Stefán tekur sæti Þorbjörns Rúnarssonar. Stefán ætti að vera flestum kunnur en hann var meðal annars í sigursælu liði ME í Gettu Betur á sínum tíma.
Flestir ættu að þekkja til góðrar frammistöðu Fljótsdalshéraðs í þættinum síðasta vetur. Liðið tapaði þá naumlega fyrir Reykvíkingum í undanúrslitum með 66 stigum gegn 69 stigum Reykjvíkinga. Hvað hlutverkaskipan varðar hefur heyrst að Þorsteinn muni áfram taka að sér bjölluhlaupin. Ekki er enn vitað hvort Stefán eða Margrét muni taka að sér leikarahlutverkið sem Þorbjörn leysti með stakri snilldi í svokölluðum “actionary” hluta þáttarins.
Sýningar á Útsvari hefjast föstudaginn 12. september næstkomandi. En er ekki ljóst hvenær Fljótsdalshérað mun etja kappi, eða við hverja. Umsjónarmenn þáttarins eru Sigmar Guðmundsson og Þóra Arnórsdóttir. Dómari og spurningahöfundur er Ólafur Bjarni Guðnason.