Við göngustíginn í Selskóg var síðasta haust komið fyrir lýsingu, enda er göngustígurinn mikið notaður af útivistarfólki allt árið um kring. Nýverið réðust óprúttnir aðilar á ljósakúplana, á ljósastaurunum og brutu marga þeirra og brömluðu.
Ekki er enn vitað hverjir voru þar að verki. Fyrst voru brotin fimm ljós, og stuttu síðar fjögur. Allar upplýsingar um verknaðinn eru vel þegnar, en skemmdarverkin hafa verið tilkynnt til lögreglu. Haft hefur verið samband við skólana í sveitarfélaginu og þeir beðnir um að ræða við nemendur sína í þeirri von að látið verði af þessari óæskilegu iðju.
Eggert Sigtryggsson, fasteigna- og þjónustufulltrúi hjá Fljótsdalshéraði, segir að tjónið sé metið vel á þriðja hundrað þúsund króna. „Ef næst til sökudólganna verður gripið til viðeigandi ráðstafana. Slík háttsemi verður ekki liðin. Ég hvet íbúana til að vera vakandi gagnvart skemmdarverkum af þessu tagi og eins gagnvart veggjakroti sem er hvimleitt. Ég hvet foreldra til þess að ræða þessi mál við börnin sín. Blessunarlega hefur umgengni verið á margan hátt til fyrirmyndar undanfarin ár og ég vona að svo geti orðið áfram,” segir Eggert.