Skák og meiri skák

Í vor kom upp sú hugmynd að bjóða upp á skáknámskeið fyrir krakka á grunnskólaaldri á Fljótsdalshéraði. Skemmst er frá því að segja að sveitarfélagið tók vel í hugmyndina og var Bjarni Jens Kristinsson, hugmyndasmiður og skákmaður, fenginn til verksins. Markmið námskeiðanna var ekki bara að kynna skáklistina og efla áhugann heldur líka gefa efnilegum skákkrökkum tækifæri til að taka framförum og verða enn betri.

Vikunámskeið
Til að höfða til sem flestra var boðið upp á þrjú stig námskeiða ásamt lokanámskeiði fyrir þá áhugasömustu. Hvert námskeið var vikulangt, 2-4 klst. á dag eftir stigi. Námskeiðin voru bæði haldin í Hallormsstaðaskóla og á Egilsstöðum í Sláturhúsinu og Ný-Ung.

Eins og við mátti búast var minnst aðsókn á byrjendanámskeiðin sem nefndust Stig 1. Á því stigi var manngangurinn kenndur og fleira sem nýtist ungum skákmönnum við sín fyrstu skref. Heldur fleiri skráðu sig á Stig 2 þar sem aðaláherslan var lögð á að tefla og hafa gaman af. Einnig lærðu nemendur grunnatriði fræðilegu hliðarinnar svo sem að máta með drottningu og hrók.

Mestur áhugi reyndist vera fyrir Stigi 3. Því var ætlað að koma til móts skákáhuga þeirra krakka sem reglulega sækja skákmót og vilja verða betri skákmenn. Þeim var meðal annars leiðbeint um hvernig þeir gætu haldið áfram og þjálfað sig sjálfir til dæmis með hjálp Internetsins. Lokanámskeiðið var svo haldið í miðjum júlí fyrir þá sem höfðu verið á 2. eða 3. stigi og greinilegt var að krakkarnir höfðu tekið framförum.

Vikunámskeiðin sóttu alls 20 krakkar. Margir þeirra sóttu fleiri en eitt námskeið - jafnvel þrjú. Stúlkur voru fjórðungur þeirra sem sóttu námskeiðin.

Vinnuskólinn
Haldin voru sérstök skáknámskeið einungis fyrir Vinnuskólann. Þessi námskeið voru lausari í reipunum og hópurinn mjög misleitur eins og gefur að skilja. Þó var lagt upp með að allir kæmu að minnsta kosti einu sinni í hálfan dag og þeir áhugasömu fengu að koma oftar. Þetta nýttu sér margir krakkar og sumir hverjir mættu nær daglega í tvær vikur til að tefla. Farið var yfir nokkur grunnatriði skákarinnar en einnig var komið til móts við fastagestina sem fengu meðal annars skákdæmi til að glíma við.

Áframhald
Þetta tilraunaverkefni tókst ákaflega vel og áframhald verður í vetur. Stefnt er að helgarnámskeiði fyrri hluta vetrar til að viðhalda áhuganum.

Á myndinni má sjá nokkra áhugasama þátttakendur í einu skáknámskeiðinu.