Sirkus, tónleikar og reiðtúr á Ormsteiti fimmtudag

Á dagskrá Ormsteitis í dag, fimmtudaginn 20. ágúst er fjölbreytt dagskrá í boði eins og áður.
Klukkan 10.00 og 17.00 er hægt að fara í reiðtúra inn að Ófæruseli frá Óbyggðasetri Íslands. Þar gefur að líta einstaka fossa og fjölbreytta náttúru. Í ferðinni er einnig litið inn í gamla húsið á Kleif og fólki gefst kostur á að renna sér yfir á kláfferju yfir Jökulsá í Fljótsdal. Þetta er um það bil þriggja tíma ferð. Í Óbyggðasetrinu verður boðið upp á hádegis- og kvöldmat sem og kaffiveitingar um miðjan daginn. Tekið er á móti bókunum í síma 440 8822 og á netfangið info@wilderness.is

Sirkus Baldoni verður með sýningu í íþróttahúsinu í Fellabæ sem hefst kl. 19.00. Það er næstum því orðin hefð að danski sirkusinn, Sirkus Baldoni, komi til Íslands. Í ár heimsækir hann heimsækja sjö bæjarfélög dagana 20. – 26. ágúst. Sirkus Baldoni var stofnaður í Danmörku árið 2002 og heimsótti Ísland í fyrsta skipti árið 2008 og kom aftur árin 2009 og 2014. Í hvert skipti hefur sirkusinn boðið upp á ný sýningaratriði. Eftir sýninguna á Íslandi heldur Baldoni ferð sinni áfram til Færeyja. Nánari upplýsingar má sjá á www.cirkusbaldoni.dk . Miðasala er á midi.is sem og við innganginn einni klukkustund fyrir sýningu.

Dægurlagadraumar eru tónleikar sem fram fara í Sláturhúsinu og hefjast þeir kl. 21.00. Hljómsveitina skipa Austfirðingarnir Bjarni Freyr og Þorlákur Ægir Ágústssynir, Garðar Eðvaldsson, Erla Dóra Vogler, Jón Hilmar Kárason og Þórður Sigurðarson. Aðgangseyrir er kr. 1.000. Enginn posi er við innganginn. Kertaljós og kósýheit í frystiklefanum.

Á milli kl. 21.00 og 23.00 verður Kaffi Egilsstaðir með tilboð á barnum.