09.11.2007
kl. 08:14
Fréttir
Sigurður Grétarsson, fulltrúi Á-listans í bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs og framkvæmdastjóri Héraðsverks, lést í Bandaríkjunum í byrjun vikunnar. Á fundi bæjarstjórnar 7. nóvember var Sigurðar minnst af forseta bæjarstjórnar í upphafi fundarins.
Sigurður Grétarsson hefur um langt árabil unnið á vettvangi sveitarstjórna. Hann var fyrsti starfandi
sveitarstjóri Fellahrepps. Þá var hann kjörinn í sveitarstjórn Fellahrepps 1990 - 1994 og síðar í
bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs þar sem hann hefur setið frá árinu 2005.
Sigurður gegndi fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir sveitarfélögin, auk þess sem hann starfaði sem
byggingarfulltrúi Fellahrepps í mörg ár. Hann vann verk sín af alúð, trúmennsku og ósérhlífni. Hann
var þróttmikill athafnamaður sem tók virkan þátt í samfélaginu, hvort sem var á vettvangi atvinnulífsins eða félagsmála.
Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs sendir fjölskyldu Sigurðar, vinum og vandamönnum sínar dýpstu
samúðarkveðjur. Skyndilegt fráfall Sigurðar er okkur öllum mikið áfall og missir fyrir samfélagið á
Austurlandi.
Að lokum bað forseti bæjarfulltrúa og aðra viðstadda að rísa úr sætum til að heiðra minningu Sigurðar.