Rýmingaræfing verður haldin á morgun, laugardaginn 9. júní, á áhrifasvæði Jökulsár á Dal, en hún er lokahnykkurinn á gerð nýrra viðbragðs- og rýmingaráætlana fyrir áhrifasvæði Hálslóns.
Ætlunin er að láta reyna á rýmingaráætlunina með þeim hætti að íbúar á svæðinu fá boð um rýmingu. Allir íbúar og sumarhúsaeigendur á svæðinu er hvattir til þess að taka þátt í æfingunni og hjálpa til við að gera hana sem raunverulegasta með því að rýma hús sín og skrá sig í fjöldahjálparstöð og aðstoða þannig viðbragðsaðila við að æfa sig.
Þeir munu fá boð frá Neyðarlínunni með SMS og talskilaboðum um að æfingin sé hafin og þeir beðnir að fara í fjöldahjálparstöð á Egilsstöðum. Þeir sem mæta í fjöldahjálparstöðina ská sig þar og geta að því loknu farið aftur heim en boðið verður uppá léttar veitingar í skólanum fyrir íbúa.
Mjög mikilvægt er að sem flestir á rýmingarsvæðinu taki þátt í æfingunni því það gefur raunverulegar upplýsingar um hversu langan tíma rýmingin tekur.