Rekstrarafkoma Fljótsdalshéraðs árið 2007 góð
19.03.2008
kl. 12:50
Fréttir
Miðvikudaginn 19. mars var ársreikningur Fljótsdalshéraðs fyrir árið 2007 lagður fram í bæjarstjórn til fyrri umræðu. Rekstarafkoma ársins varð mun betri en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir sem skýrist að mestu af lengri framkvæmdatíma við Kárahnjúkavirkjun.
Þar af leiðandi urðu skattgreiðslur íbúa virkjunarsvæðisins hærri en ætlað var í forsendum fjárhagsáætlunar fyrir árið 2007.
Fljótsdalshérað var rekið með 189,6 millj. kr. rekstrarafgangi á árinu 2007 samkvæmt samanteknum ársreikningi fyrir A og B hluta stofnanir sveitarfélagsins. Afkoma A-hluta var jákvæð sem nemur 173,7 millj. kr. Fyrir fjármagnsliði var rekstrarniðurstaða A og B hluta jákvæð um 370 millj.kr. á móti 304 millj. kr. í A hluta.
Rekstrartekjur sveitarfélagsins á árinu námu 2.436 millj. kr. samkvæmt samanteknum ársreikningi fyrir A og B hluta, en þar af námu rekstrartekjur A hluta 2.135 millj. kr.
Rekstrargjöld fyrir fjármagnsliði námu alls 2.066 millj. kr. í samanteknum ársreikningi fyrir A og B hluta, en þar af voru rekstrargjöld A hluta 1.831 millj. kr.
Veltufé frá rekstri nam 505 millj kr. hjá samstæðu A og B hluta, þar af er veltufé frá rekstri í A hluta um 388 millj. kr.
Fjárfestingahreyfingar ársins námu nettó 193 millj. kr. hjá samstæðu A og B hluta, en voru jákvæðar um 11 millj. í A hluta.
Lántökur námu 94 millj. kr. sem eru eingöngu hjá B hlutafyrirtækjum. Engar lántökur voru í A hluta.
Afborganir lána skv. ársreikningi samantekins A og B hluta námu samtals um 206 millj. kr., þar af 143 millj. kr. hjá A hluta.
Eigið fé sveitarfélagsins í árslok 2007 nam 1.689 millj. kr. samkvæmt efnahagsreikningi, en þar af nam eigið fé A hluta 1.462 millj. kr. Eiginfjárhlutfall hækkar milli ársloka 2006 og 2007 úr 33% í 39% og í A hluta úr 38% í 46%.
Þann 1. desember 2007 voru íbúar Fljótsdalshéraðs 4.073og fækkað um 12,3% á árinu sem skýrist af fækkun íbúa á virkjunarsvæði Kárahnjúkavirkjunar. Skuldir og skuldbindingar á íbúa í A hluta sveitarsjóðs hækkuðu á árinu um 32 þús. kr. og voru í árslok 419 þús. kr. sem skýrist af fækkun íbúa enda engar nýjar lántökur hjá A- hluta á árinu á meðan eignir hækkuðu um 152 þús. kr. á íbúa og námu 777 þús. kr. á íbúa.
Beitt er sömu reikningsskilaaðferðum og á árinu 2006.
Ársreikningur 2007 verður lagður fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs þann 19. mars 2008 og síðan til samþykktar í seinni umræðu þann 2. apríl og mun þá birtur í heild sinni á heimasíðu Fljótsdalshéraðs.