Öræfahjörðin: Útgáfuhóf í Bókakaffi

Út er komin bókin Öræfahjörðin. Saga hreindýra á Íslandi, eftir Unni Birnu Karlsdóttur sagnfræðing og forstöðumann Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Austurlandi, á Egilsstöðum. Af þessu tilefni verður haldið útgáfuhóf í Bókakaffi í Fellabæ laugardaginn 2. nóvember klukkan 15:00. Allir eru velkomnir.

Bókin er afrakstur rannsóknar sem Unnur vann að á Austurlandi á árunum 2015-2019. Í henni er rakin saga hreindýra á Íslandi frá því þau voru flutt til landsins á seinni hluta 18. aldar til dagsins í dag. Bókin er hugmyndasaga sem fjallar jafnt um hreindýrin sjálf og viðhorf landsmanna til þeirra. Fjallað er um lífsbaráttu hreindýra, veiðiferðir fyrr og síðar, deilur um hreindýr og drauma um hreindýrabúskap. Fjallað er um sambúð manna og hreindýra á Austurlandi en einnig á Reykjanesi og í Þingeyjarsýslu.

Unnur Birna Karlsdóttir gegnir stöðu forstöðumanns Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Austurlandi. Hún lauk doktorsprófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands árið 2010. Hún hefur sent frá sér ýmis fræðirit og fræðigreinar um samband manna og náttúru á Íslandi. Rannsóknin á sögu hreindýra á Íslandi er stærsta verk hennar á því sviði hingað til. Þessi rannsókn á sögu hreindýra á Íslandi var unnin í framhaldi af því að Unnur setti upp sýningu um hreindýrin á Austurlandi í Minjasafni Austurlands, í Safnahúsinu á Egilsstöðum, sem opnuð var í júníbyrjun 2015 og stendur enn.